40 milljarða króna rekstrarlán til Icelandair til umræðu strax í upphafi faraldursins

Fimmtán milljarða króna lánalína frá hinu opinbera til Icelandair Group er nú til umræðu á Alþingi. Það er þó mun lægri upphæð en nefnd var á fundum forráðamanna fyrirtækisins og stjórnvalda í vetrarlok.

Síðustu mánuði hafa umsvif Icelandair dregist verulega saman vegna Covid-19. MYND: ISAVIA

Það var í byrjun mars sem útbreiðsla Covid-19 setti fyrst flugáætlun Icelandair og fleiri evrópskra flugfélaga úr skorðum. Til að byrja með var rétt um tvö prósent af áætlunarflugi Icelandair fellt niður en þegar leið á mars hækkaði það hlutfall umtalsvert.

Stjórnendur Icelandair Group gripu þá til niðurskurðar. Undir lok mars var 240 manns sagt upp störfum og starfshlutfall flestra annarra var skert tímabundið.

Sterk lausafjárstaða félagsins var þó tíunduð í tilkynningum frá félaginu á þessum tíma. Strax í mars ámálguðu þó forráðamenn Icelandair við stjórnvöld 300 milljón dollara rekstrarlán til félagsins. Það jafngildir um fjörutíu milljörðum króna á þáverandi gengi.

Ekkert varð af þessari lánveitingu en í framhaldinu töldu stjörnvöld rétt að koma samskiptum við Icelandair í skipulegan farveg.

Þetta er meðal þess sem kom fram í kynningu fulltrúa fjármálaráðuneytisins fyrir fjárlaganefnd í síðustu viku og birt hefur verið á vef Stjórnarráðsins. Fjárlaganefnd er nú með til umræðu ríkisábyrgð á allt að fimmtán milljarða króna lánalínu til Icelandair samsteypunnar.

Spurður um hvernig þessi hugmynd um tugmilljarða króna rekstrarlán færi saman við umræðuna um sterka lausafjárstöðu Icelandair á sínum tíma þá segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, að þetta hafi aðeins verið ámálgað eins og margt fleira í ferlinu.

„Lausafjárstaðan var mjög sterk enda erum við nú að vera komin inn í september án sértækrar aðstoðar. Það er meira en hægt er að segja um flest önnur flugfélög. Við sögðum hins vegar mjög snemma, strax í upphafi Covid, að við myndum ekki komast í gegnum margra mánaða tekjubrest án aðstoðar,“ bætir Bogi við.