79 prósent færri áætlunarferðir til útlanda

Þó flugumferðin hafi aukist verulega í júlí þá er niðursveiflan frá síðasta sumri veruleg. Áform Icelandair um aukin umsvif gengu ekki eftir.

Að jafnaði voru farnar sautján áætlunarferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli í júlí. MYND: ISAVIA

Eftir að flug milli Evrópulanda hófst á ný um miðjan júní þá bættist í hóp þeirra flugfélaga sem tóku upp þráðinn í Íslandsfluginu. Seinni hlutann í júní sinntu þannig sjö flugfélög áætlunarferðum til Keflavíkurflugvallar. Í júlí voru þau svo þrettán talsins. Til samanburðar voru flugfélögin tuttugu og þrjú í júlí í fyrra.

Fjöldi áætlunarferða jókst líka í júlí eða upp í sautján brottfarir frá Keflavíkurflugvelli að jafnaði á dag. Meðaltalið seinnihlutann í júní var rétt um tíu brottfarir. Þrátt fyrir þessa viðbót þá nam samdrátturinn í fjölda áætlunarferða frá Keflavíkurflugvelli 79 prósentum í júlí samkvæmt talningum Túrista.

Icelandair var sem fyrr umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli stóð félagið undir nærri helmingi allra ferða. Samdrátturinn hjá félaginu var þó gríðarlegur og nam 85 prósentum þegar horft er til fjölda áætlunarferða.

Sú flugáætlun sem stjórnendur Icelandair kynntu um miðjan júní, þegar landamæri opnuðust á ný, gerði þó ráð fyrir mun fleiri ferðum. Þá voru nefnilega bundnar vonir við að flug til Norður-Ameríku myndi hefjast á ný en það hefur ennþá ekki gengið eftir. Þar með var flugáætlun Icelandair skorin verulega niður á ný.

Vægi Wizz Air var hátt í júlí eða nærri fimmtungur sem er veruleg viðbót frá sama tíma í fyrra eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Þetta ungverska lággjaldaflugfélag bauð upp á samtals eitt hundrað ferðir frá Keflavíkurflugvelli í júlí sem er aðeins 27 prósent samdráttur frá júlí í fyrra.