Áætlanir Icelandair óraunhæfar að mati Play

Frumvarp fjármálaráðherra um lánalínu til Icelandair fær neikvæða umsögn hjá forsvarsmönnum Play.

Ríkisábyrgð til handa Icelandair mun raska eðlilegum samkeppnismarkaði í flugi til og frá Íslandi næstu fimm ár og gera nýjum aðilum erfiðara fyrir að fóta sig. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Play um frumvarp um allt að fimmtán milljarða króna lánalínu til Icelandair Group.

„Ívilnun úr hófi fram við einn aðila er líkleg til að stuðla að fákeppnismarkaði þar sem fyrirtæki, sem reynst hefur erfitt að fóta sig í samkeppnisumhverfi, fær nægjanlegt forskot fyrir tilstuðlan ríkisins til þess að halda öðrum aðilum frá þeim markaði og veita þannig löskuðum rekstri óverðskuldað framhaldslíf,“ segir jafnframt í umsögninni sem Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, sendir fyrir hönd fyrirtækisins.

Og að mati stjórnenda Play eru áform um fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair Group óraunsæ.

„Áætlun forsvarsmanna Icelandair Group um það hvernig félagið muni standa undir þessum skuldbindingum gerir ráð fyrir hækkandi tekjum af hverri einingu. Þessi spá er bjartsýn og samræmist ekki því sem greiningaraðilar hafa verið að spá um harða samkeppni þegar flug hefst að nýju eftir Covid 19 faraldurinn. Þessi spá virðist einnig horfa hjá möguleikanum á samkeppni frá innlendum aðila á borð við þá sem félagið glímdi við á uppgangstíma WOW Air, enda er aukin samkeppni nefnd sem einn af helstu áhættuþáttum þess að spár félagsins gangi eftir og því jafnframt einn helsti áhættuþátturinn í því að reyna muni á ábyrgðina,“ segir í áliti Play.

Þar er einnig tekið fram að svo virðist sem frumvarp fjármálaráðherra sé sett fram að gefinni þeirri forsendu að áform Play, um að hefja flug frá Íslandi um leið og aðstæður leyfa, gangi ekki eftir. Því annars gæti áhættan sem fylgir veitingu lánalínunnar raungerst.

Þess ber að geta að Play er ekki ennþá komið með flugrekstrarleyfi og telst því ekki vera flugfélag. Fjárlaganefnd óskaði engu að síður eftir áliti frá fyrirtækinu en ekki núverandi keppinautum Icelandair líkt og Túristi fjallaði um í gær.