Auka rétt korthafa tímabundið vegna inneignarbréfa flugfélaga

Til að standa vörð um lausafjárstöðu flugfélaga þá hafa stjórnendur þeirra boðið neytendum inneignarnótur í stað endurgreiðslna vegna þeirra ferða sem felldar hafa verið niður. Réttur handhafa þessara inneignarbréfa hefur nú verið aukinn en þó með takmörkunum.

Mynd: Gerrie Van Der Walt

Þeir neytendur sem kaupa flugmiða með greiðslukorti eiga rétt á endurgreiðslu frá viðkomandi kortafyrirtæki ef flugfélagið verður gjaldþrota áður en lagt er af stað í ferðalagið. Þessi vernd nær líka til þeirra farþega sem hafa breytt farmiðum í inneignarnótur vegna flugferða sem felldar hafa verið niður vegna heimsfaraldursins sem nú geysar.

Á því eru þó ákveðnar takmarkanir samkvæmt svari Valitor við fyrirspurn Túrista. Þar segir að kortasamsteypurnar hafi vegna Covid-19 aukið rétt korthafa tímabundið til að gera endurkröfu vegna inneignarnótu sem gefin er út af seljanda sem getur ekki veitt keypta þjónustu.

„Ef söluaðilinn verður gjaldþrota getur korthafinn gert endurkröfu og mælt er með að það sé gert innan tólf mánaða frá dagsetningu upprunalegrar færslu vegna kaupa á ferð. Korthafi þarf að geta sýnt fram á að viðkomandi gjafabréf/inneignarnóta hafi komið í stað þjónustu sem hann hafði greitt með korti og átti að fara fram meðan Covid-19 gekk yfir,“ segir í svarinu.

Þar kemur jafnframt fram að slíkur réttur kunni þó ekki að vera til staðar í tilvikum þar sem söluaðili er hindraður frá því að geta veitt þjónustuna vegna reglna frá yfirvöldum sem gera honum ókleift að veita hana. „Þess ber að geta að kortasamsteypurnar, VISA og MasterCard, en ekki Valitor, úrskurða endanlega um hvort korthafi eigi endurkröfurétt,“ segir að lokum í svari fyrirtækisins.

Gera má ráð fyrir að fjöldamargir íslenskir neytendur eigi í dag inneignarnótur hjá ferðaskrifstofum og flugfélögum. Og væntanlega er stór hluti þeirra frá Icelandair því á fyrri helmingi ársins gaf flugfélagið út inneignarbréf fyrir 9,1 milljarð króna.

Þessi bréf gilda til þriggja ára líkt og fram kom í nýjasta uppgjöri félagsins. En sem fyrr segir þá gildir ábyrgð kortafyrirtækjanna í skemmri tíma eða til tólf mánaða.

Fréttin var uppfærð með ítarlegra svari frá Valitor.