Bæta við Íslandsferðum frá Ítalíu

Eftir að Icelandair felldi niður allar ferðir til Mílanó í sumar þá situr Wizz Air eitt að fluginu þaðan til Íslands. Nú fjölgar ungverska lággjaldaflugfélagið brottförum úr þremur í fjórar í viku.

Frá Mílanó. MYND: MATTEO RAIMONDI / UNSPLASH

Norðurhluti Ítalíu fór mjög illa út úr fyrstu bylgju Covid-19 en þrátt fyrir það opnaði Wizz Air starfstöð á flugvellinum í Malpena við Mílanó nú í sumarbyrjun. Í framhaldinu voru áætlunarferðir þaðan til Íslands settar á dagskrá og var jómfrúarferðin farin í byrjun júlí.

Síðan þá hafa þotur ungverska lággjaldaflugfélagsins flogið hingað þrisvar í viku og nú bætist við aukabrottför á laugardögum. Verða ferðirnar þá fjórar í viku fram í miðjan september samkvæmt heimasíðu félagsins.

Ágúst er einmitt sá mánuður sem flestir Ítalir nýta í utanlandsferðir og þá koma hingað vanalega miklu fleiri ítalskir túristar en aðra mánuði ársins.

Sú staðreynd skýrir þó væntanlega ekki ein og sér þessa tímabundna viðbót við Íslandsflug Wizz Air frá Ítalíu. Ástæðan gæti líka legið í þeirri ákvörðun forsvarsfólks Icelandair að fella niður ferðir félagsins til Mílanó í sumar.

Þar með er Wizz Air eitt um áætlunarflug milli Íslands og Ítalíu og nú nægir félaginu ekki lengur þrjár ferðir í viku.