Bið fram í næstu viku eftir Icelandair

Nú liggja fyrir samningar við stéttarfélög og flesta kröfuhafa en ekki alla. Eins á eftir að ná samkomulagi við Boeing. Því þarf Icelandair Group að seinka boðuðu hlutafjárútboði á ný.

Landsbankinn og bandaríski CIT bankinn eru með veð í flugvélum Icelandair. Mynd: Isavia

Það hefur reynst tímafrekara en lagt var upp með að undirbúa hlutafjárútboð Icelandair samsteypunnar. Upphaflega stóð til að birta fjárfestakynningu þann 16. júní og ljúka útboðinu í byrjun júlí.

Sá frestur hefur nú verið framlengdur á ný því samkvæmt tikynningu sem flugfélagið sendi frá sér í gærkvöld þá tókst ekki að ljúka viðræðum við alla kröfuhafa fyrir mánaðamót líkt og lagt var upp með. Nú er stefnt að því að hafa allt tilbúið í lok næstu viku og að útboðinu ljúki í ágúst.

Líkt og áður hefur komið fram þá snúast viðræður við kröfuhafa ekki um afskriftir heldur greiðsluaðlögun. En meðal stærstu lánadrottna Icelandair samsteypunnar eru Landsbankinn og Íslandsbanki en báðir eru í eigu íslenska ríkisins.

Landsbankinn lánaði Icelandair rúma tíu milljarða króna (80 milljónir dollara) í mars í fyrra gegn veði í tíu Boeing 757 þotum. Virði þess háttar flugvéla hefur þó skiljanlega rýrnað í núverandi krísu.

Veð Íslandsbanka hjá Icelandair munu liggja í fasteignum félagsins og einnig í flughermum þess í Hafnarfirði.

Bandaríski CIT bankinn lánaði Icelandair í tvígang um síðustu áramót og þá gegn veði í flugvélum.

Icelandair Group reynir jafnframt að ná samningum við Boeing og snúast þær um frekari bætur vegna kyrrsetningar þotanna í mars í fyrra. Eins er unnið að breytingu á tímasetningum á afhendingu þotanna sem félagið á eftir að fá. Icelandair er því ekki að segja skilið við Boeing. Samningaviðræður við bandaríska flugvélaframleiðandann eru vel á veg komnar samkvæmt tilkynningu gærdagsins.

Meðal annarra kröfuhafa sem Icelandair þarf að ná samningum við áður en útboð hefst eru færsluhirðar og eins þau fjármálafyrirtæki sem Icelandair hefur gert framvirka samninga við um kaup á þotueldsneyti. Umsamið verð er töluvert yfir núverandi heimsmarkaðsvirði.