Bið fram í næstu viku eftir Icelandair

Nú liggja fyrir samningar við stéttarfélög og flesta kröfuhafa en ekki alla. Eins á eftir að ná samkomulagi við Boeing. Því þarf Icelandair Group að seinka boðuðu hlutafjárútboði á ný.

Landsbankinn og bandaríski CIT bankinn eru með veð í flugvélum Icelandair. Mynd: Isavia

Það hefur reynst tíma­frekara en lagt var upp með að undirbúa hluta­fjárútboð Icelandair samsteyp­unnar. Upphaf­lega stóð til að birta fjár­festa­kynn­ingu þann 16. júní og ljúka útboðinu í byrjun júlí.

Sá frestur hefur nú verið fram­lengdur á ný því samkvæmt tikynn­ingu sem flug­fé­lagið sendi frá sér í gærkvöld þá tókst ekki að ljúka viðræðum við alla kröfu­hafa fyrir mánaðamót líkt og lagt var upp með. Nú er stefnt að því að hafa allt tilbúið í lok næstu viku og að útboðinu ljúki í ágúst.

Líkt og áður hefur komið fram þá snúast viðræður við kröfu­hafa ekki um afskriftir heldur greiðsluað­lögun. En meðal stærstu lána­drottna Icelandair samsteyp­unnar eru Lands­bankinn og Íslands­banki en báðir eru í eigu íslenska ríkisins.

Lands­bankinn lánaði Icelandair rúma tíu millj­arða króna (80 millj­ónir dollara) í mars í fyrra gegn veði í tíu Boeing 757 þotum. Virði þess háttar flug­véla hefur þó skilj­an­lega rýrnað í núver­andi krísu.

Veð Íslands­banka hjá Icelandair munu liggja í fast­eignum félagsins og einnig í flug­hermum þess í Hafnar­firði.

Banda­ríski CIT bankinn lánaði Icelandair í tvígang um síðustu áramót og þá gegn veði í flug­vélum.

Icelandair Group reynir jafn­framt að ná samn­ingum við Boeing og snúast þær um frekari bætur vegna kyrr­setn­ingar þotanna í mars í fyrra. Eins er unnið að breyt­ingu á tíma­setn­ingum á afhend­ingu þotanna sem félagið á eftir að fá. Icelandair er því ekki að segja skilið við Boeing. Samn­inga­við­ræður við banda­ríska flug­véla­fram­leið­andann eru vel á veg komnar samkvæmt tilkynn­ingu gærdagsins.

Meðal annarra kröfu­hafa sem Icelandair þarf að ná samn­ingum við áður en útboð hefst eru færslu­hirðar og eins þau fjár­mála­fyr­ir­tæki sem Icelandair hefur gert fram­virka samn­inga við um kaup á þotu­eldsneyti. Umsamið verð er tölu­vert yfir núver­andi heims­mark­aðsvirði.