Bíða lengur með að hefja Íslandsflug á ný

Flugáætlun Finnair í haust verður ekki eins umfangsmikil og gert var ráð fyrir.

finnair a
Finnair hóf að fljúga til Íslands vorið 2017 og hefur flogið hingað allt árið um kring síðan þá. Ferðir félagsins hafa þó legið niðri í heimsfaraldrinum, Mynd: Finnair

Nú í haust var það ætlun stjórnenda Finnair að fjölga ferðunum innan Evrópu og þar á meðal að taka upp þráðinn í flugi til Íslands. Af því verður þó ekki sem skrifast á hertar ferðaviðvaranir innan Evrópu samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Þar er haft eftir markaðsstjóra flugfélagsins að framboð félagsins í næsta mánuði verði um 30 prósent af því sem var í september í fyrra. Það er álíka hlutfall og stefnir í hjá Icelandair líkt og Túristi rakti í gær.

Finnair er mjög stórtækt í flugi til Asíu og það hefur komið fram í svörum forsvarsmanna félagsins, við fyrirspurnum Túrista, að fjöldi ferðamanna frá Asíu nýtir ferðir félagsins hingað til lands.

Flugsamgöngur milli Íslands og Finnlands liggja nú alveg niðri en flugáætlun Icelandair gerði ráð fyrir ferðum til Helsinki frá og með næstu mánaðamótum. Af því verður ekki samkvæmt nýjustu útgáfu áætlunarinnar.