Bíða með nýjar þotur til ársins 2024

Þegar kemur að því að kaupa nýjar þotur þá mun Icelandair njóta góðs af minni eftirspurn eftir farþegaþotum í kjölfar Covid-19. Það verður þó bið eftir því að ný flugvélategund bætist við flota félagsins og þangað til verður vægi MAX þotanna mikið.

Nokkrar af MAX þotum Icelandair. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Það voru samtals þrjátíu og níu þotur nýttar í farþegaflug Icelandair í fyrra en til marks um minnkandi umsvif þá er gert ráð fyrir tuttugu og einni þotu á næsta ári. Af þeim verða níu Boeing MAX þotur og þrjár þess háttar bætast við árið 2022.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri fjárfestakynningu Icelandair. Þar segir að MAX þoturnar séu „fullkomnar til að fara inn á nýja markaði og til halda kostnaði niðri á lykil flugleiðum.“ Er þar vísað til þess hve kostnaður við rekstur þessara þota er lágur.

Sérfræðingar Icelandair gera ráð fyrir að eftirspurn eftir flugi aukist jafnt og þétt á ný en fyrst árið 2024 telja þeir þörf fyrir nýjar þotur. Þangað til á að notast við MAX flugvélar og svo Boeing 757 og 767 eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Nýjustu þoturnar í tveimur síðarnefndu hópunum voru framleiddar á árunum 1999 og 2000.

Biðtíminn eftir nýjum þotum getur þó verið umtalsverður og því má gera ráð fyrir að stjórnendur Icelndair þurfi fljótlega að gera upp við sig hvers konar þotur verða keyptar eða leigðar. Þar er horft til fleiri MAX þota eða Airbus NEO því í fjárfestakynningunni segir að flugvélar af þessum tegundum bjóði upp á ný tækifæri fyrir tengiflug frá Keflavíkurflugvelli.

Ennþá liggur ekki fyrir hvenær MAX þotur fá að flytja farþega á ný en vestanhafs eru bundnar vonir við að það verði í kringum áramótin. Flugmálayfirvöld í Evrópu hafa sagt að þau muni sjálf framkvæma prófanir á vélunum og þar með gæti biðin í Evrópu orðið lengri.

Mynd úr fjárfestakynningu Icelandair

Túristi mun birta fleiri fréttir í dag og næstu daga upp úr þessari nýju fjárfestakynningu.