Ekki lengur skylda að gista í sex nætur

Nú ráða ferðamenn á ný hversu lengi þeir dvelja í Danmörku.

kaupmannahofn ferdamadur Morten Jerichau
Ferðafólk í Danmörku er ekki lengur bundið af því að gista að lágmarki sex nætur í landinu.

Þegar Danir opnuðu landamæri sín á ný þann 15. júní sl. þá urðu ferðamenn að sýna fram á að þeir ættu bókaða gistingu í að lágmarki sex nætur við komuna til Danmerkur.

Þessi kvöð mætti mikilli andstöðu hjá danskri ferðaþjónustu og ekki síður sú regla að ferðafólk mátti ekki gista í Kaupmannahöfn. Síðarnefnda krafan var fljótlega felld úr gildi og nú heyrir sex nátta reglan líka sögunni til.

Þar með geta ferðamenn í Danmörku hagað ferðum sínum eins og þeir vilja. Því fagnar forsvarsfólk danskra ferðaþjónustufyrirtækja en samkvæmt útreikningum þeirra hefur þessi sex nátta regla kostað fyrirtækin í geiranum tugi milljarða íslenskra króna.

Frá Íslandi eru tíðar flugferðir til Kaupmannahafnar á vegum bæði Icelandair og SAS og í júlí voru Danir fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi.

Nú hefur embætti landlæknis aftur á móti varað Íslendinga við ferðalögum út í heim og frá og með morgundeginum þurfa allir í fjögurra til fimm daga sóttkví við heimkomuna. Það er því viðbúið að það munu ekki margir Íslendingar halda í frí til Danmerkur á næstunni.