Enginn opinber stuðningur frá eigendum Icelandair

Stærstu hluthafar Icelandair Group hafa ekki gefið út nein loforð um þátttöku í komandi útboði félagsins. Stór hluti af nýju hlutafé í öðrum flugfélögum hefur aftur á móti verið seldur fyrirfram.

MYND: SIGURJÓN RAGNAR / SR-PHOTOS.COM

Það eru ekki mörg flugfélög sem hafa lagt í hlutafjárútboð í yfirstandandi heimsfaraldri. Óvissan í ferðageiranum er nefnilega gríðarleg og erfitt er að spá fyrir um tekjur flugfélaga næstu misseri. Á sama tíma hefur skuldahali þeirra lengst líkt og umfangsmikil útgáfa inneignarbréfa er dæmi um

Virði flugfélaga hefur líka hríðfallið vegna Covid-19 og þar með sitja núverandi hluthafar uppi með bréf sem eru miklu verðminni í dag en þau voru í ársbyrjun. 

Þrátt fyrir þennan sterka mótvind þá var umfram eftirspurn í hlutafjárútboði Finnair fyrr í sumar. Meirihluti útgáfunnar var þó seldur fyrirfram því finnska ríkið, sem lengi hefur átt 56 prósent í flugfélaginu, tók sinn skerf í útboðinu. Það sama gerðist í Singapúr þar sem fjárfestingafélag hins opinbera á rúmlega helming í Singapore Airlines.

Sænsk og dönsk stjórnvöld ætla líka að halda tryggð við SAS en ríkin tvö eiga í dag nærri þrjátíu prósent hlut í flugfélaginu. Það hlutfall gæti hækkað því í komandi hlutfjárútboði SAS hafa þrír stærstu eigendur félagsins, þar af danska og sænska ríkið, skuldbundið sig til að kaupa allt að 81,5 prósent af útgáfunni. 

Það stóð svo til að fjórir stærstu bankar Skandinavíu myndu sölutryggja þennan tæpa fimmtung sem eftir stendur. Nordea, stærsti banki Norðurlanda, vildi þó ekki taka þátt í því og þar með datt sú leið upp fyrir.

Það eru þó ekki bara flugfélög sem eru að hluta til í eigu ríkisins sem reyna að ganga í augun á fjárfestum þessa dagana. Í síðustu viku tilkynntu til að mynda stjórnendur IAG, móðurfélags British Airways, Iberia og fleiri félaga, að efnt yrði til hlutafjárútboðs í september. Samstundis lýsti stærsti hluthafinn, Qatar Airways, yfir stuðningi við útgáfuna og skuldbatt sig til að kaupa fjórðung af nýju bréfunum.

Boðað hlutafjárútboð Icelandair hefur aftur á móti ekki fengið þess háttar stuðningsyfirlýsingu frá stærstu eigendum félagsins. Alla vega ekki opinberlega og ekki er annað að sjá en áhugi PAR Capital Management á Icelandair fari þverrandi. Bandaríski vogunarsjóðurinn hefur nefnileg selt bréf sín í fyrirtækinu í smáskömmtum allt frá því í vor og er ekki lengur stærsti hluthafinn.

Icelandair er þó ekki eina flugfélagið sem hefur rennt blint í sjóinn í tengslum við hlutafjárútboð á tímum Covid-19. Þannig fór útboð United Airlines í apríl fram með hefðbundnum hætti. Á þeim tíma voru reyndar ennþá bundnar vonir við að kórónaveiran væri skammtímavandi.

Fjárfestakynning í tengslum við útboð Icelandair verður væntanlega gefin út í næstu viku og þá kemur í ljós hvernig stjórnendur fyrirtækisins sjá fyrir sér endurreisnina. Í framhaldinu gætu núverandi eigendur eða aðrir fjárfestar skuldbindið sig til að kaupa töluverðan hluta af útgáfunni. Tilkoma þess háttar hornsteinsfjárfesta myndi vafalítið létta róðurinn í útboðinu.