Fá heimild fyrir opinberri aðstoð við SAS

Evrópusambandið gefur grænt ljós á opinberan stuðning við SAS.

Mynd: SAS

Sænska og danska ríkið eiga samanlagt 29 prósent hlutafjár í SAS og hafa ráðamenn í löndum tveimur heitið því að koma félaginu í gegnum núverandi heimsfaraldur.

Það verður gert með því að leggja flugfélaginu til aukið hlutafé en einnig með kaupum á skuldabréfum. Í heildina mun ríkisstuðningurinn nema 11 milljörðum sænskra króna. Það jafngildir um 170 milljörðum íslenskra króna.

Þessi gríðarlegi opinberi stuðningur fékk grænt ljós frá Evrópusambandinu í gær en þó með skilyrðum. Þannig þurfa ríkin tvö að leggja fram trúverðuga áætlun um hvernig þau ætli að minnka eignarhlut sinn í SAS á næstu árum. Það er nefnilega viðbúið að hinn opinberi eignarhlutur hækki umtalsvert í komandi hlutafjárútboði.

Þar með er lífróður SAS þó ekki á enda því nú standa yfir viðræður stjórnenda félagsins við stéttarfélög flugmanna. Þar er farið fram á að lágmarki 15 prósent kjaraskerðingu samkvæmt frétt Dagens Næringsliv. Forstjóri félagsins segir þetta samkomulag nauðsynlegt til að tryggja framtíð félagsins.