Fáir í þotunum sem komu til landsins í gær

Fyrstu tvo dagana sem hinar nýju reglur um sóttkví fyrir alla hafa gilt þá hafa nærri fjögur þúsund manns hætt við að fljúga hingað til lands.

Það voru fimmtán farþegaþotur sem lentu á Keflavíkurflugvelli í gær og áttu rúmlega tvö þúsund manns bókað sæti í þessar ferðir. Rétt um fjögur hundruð farþegar mættu samkvæmt heimildum Túrista. Það jafngildir því að fjórir af hverjum fimm farþegum sem áttu bókað Íslandsflug í gær hafi hætt við að ferðast.

Sætanýtingin í þessum fimmtán áætlunarferðum í gær hefur verið rétt um fimmtán prósent að jafnaði en til samaburðar þá voru sjö af hverjum tíu sætum í þotum Icelandair í júlí skipuð farþegum.

Það var í fyrradag sem hertari reglur um sóttkví gengu í gildi. Þann dag mættu eitt þúsund farþegar í áætlunarflug til Íslands eða um þriðjungur af þeim fjölda sem átti bókað sæti.