Ferðakostnaður Stjórnarráðsins lækkaði um meira en helming

Ferðalög milli landa lágu að mestu niðri í apríl og fram í miðjan júní og starfsmenn Stjórnarráðsins voru mun minna á ferðinni á tímabilinu.

Stjórnarráðið greiddi 27 milljónir í fargjöld til útlanda á öðrum ársfjórðungi. MYND: AMAN BHARGAVA / UNSPLASH

Það var í byrjun mars sem Covid-19 heimsfaraldurinn setti ferðalög milli landa úr skorðum. Til marks um það þá fækkaði farþegum á Keflavíkurflugvelli um 99 prósent í apríl og maí. Í júní nam samdrátturinn 96 prósentum.

Á þessu þriggja mánaða tímabili nam ferðakostnaður Stjórnarráðsins, vegna ferðalaga til útlanda, um 60 milljónum króna. Á sama tíma í fyrra var kostnaðurinn um 160 milljónir. Lækkunin því eitt hundrað milljónir kr. eða 63 prósent. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Túrista.

Þar segir jafnframt að fargjaldakostnaður hafi á þessum öðrum fjórðungi ársins farið úr 64 milljónum króna í 27 milljónir. Hlutfallslega nam lækkunin 57 prósentum.

Uppfært: Fréttin var uppfærð með nýjum tölum frá Stjórnarráðinu þar sem þær fyrstu sem Túristi fékk reyndust rangar.