Fjórða hver flugferð til Danmerkur

Kaupmannahöfn var sú borg sem oftast var flogið til í júlí frá Keflavíkurflugvelli. Til viðbótar voru einnig í boði reglulegar ferðir til Billund á Jótlandi.

Frá Kaupmannahafnarflugvelli. MYND: CPH

Ísland var eitt af þeim þremur ríkjum sem dönsk stjórnvöld heimiluðu ferðir til í júní. Þá tók Icelandair upp þráðinn í áætlunarflugi til bæði Kaupmannahafnar og Billund. Á sama tíma hóf SAS að fljúga hingað frá dönsku höfuðborginni.

Ferðirnar milli Íslands og Danmerkur urðu svo tíðari í júlí jafnvel þó Danir hafi þá mátt ferðast til fleiri landa en í sumarbyrjun. Brottfarirnar frá Keflavíkurflugvelli til Danmerkur voru þannig 128 talsins í síðasta mánuði samkvæmt talningu Túrista. Það er fjórðungur af öllu því áætlunarflugi sem í boði var frá Íslandi í júlí.

Á sama tíma í fyrra voru brottfarirnar héðan til danskra flugvalla 208 sem þá jafngilti átta prósent af heildinni. Vægi flugferða til Danmerkur er því töluvert hærra núna. Það skrifast skiljanlega á miklu meiri niðurskurð í ferðum til flestra annarra áfangastaða, þannig liggur nærri allt Ameríkuflug ennþá niðri.