Fjórði vinsælasti mánuður ársins ætti að vera framundan

Í eðlilegu árferði koma hingað álíka margir ferðamenn í september og í júní. Nú er aftur á móti spurning hversu margir koma eftir að reglur um sóttkví voru hertar. Hið opinbera er þó ekki farið að upplýsa ferðafólk um þessar nýju ráðstafanir.

Krafa um að allir farþegar fari í sóttkví við komuna til landsins gengur í gildi á miðvikudaginn. MYND: ISAVIA

Líkt og ríkisstjórnin gaf út fyrir helgi þá þurfa allir að fara í fjögurra til fimm daga sóttkví við komuna til landsins frá og með miðvikudeginum. Bæði ráðamenn þjóðarinnar og forsvarsfólk ferðaþjónustunnar virðast á einu máli um að þessar hertu reglur muni draga verulega úr áhuga útlendinga að ferðast hingað til lands.

Í venjulegu árferði væri þó framundan annasamur tími í ferðaþjónustu. Ágúst er þannig sá mánuður sem flestir útlendingar fljúga frá landinu samkvæmt talningum Ferðamálastofu. September er svo fjórði vinsælasti mánuður ársins þegar horft er til brottfara erlendra ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli.

Í september í fyrra komu hingað um 184 þúsund erlendir ferðamenn. Ef samdrátturinn að þessu sinni verður álíka og í nýliðnum júlí þá verða túristarnir rétt um 37 þúsund í næsta mánuði. Sem fyrr segir er þó almennt gert ráð fyrir að niðursveiflan verði meiri vegna hertari reglna hér á landi og aukinna ferðatakmarkana í Evrópu.

Þessi nýja krafa um sóttkví fyrir alla gæti þó komið ferðamönnum sem nú eru að pakka í töskur fyrir Íslandsferð á óvart. Alla vega þeim sem leita í dag upplýsinga um stöðu mála á heimasíðum Keflavíkurflugvallar eða á Covid.is sem embætti landlæknis og almannavarnadeild lögreglunnar halda úti.

Á þessum opinberu síðum er nefnilega ekkert að finna um hinar nýju hertu reglur sem kynntar voru á föstudag. Vefur Icelandair hefur aftur á móti verið uppfærður en það félag stendur fyrir minna en helmingi allra flugferða til og frá Keflavíkurflugvelli þessa dagana. Erlendu flugfélögin virðast fæst tiltaka sérstaklega hvernig reglurnar eru í hverju landi fyrir sig varðandi ferðalög nú á tímum Covid-19.

Uppfært: Í upphaflegri útgáfu sagði að engar upplýsingar væri heldur að finna á heimasíðu Visit Iceland. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsstofu þá voru nýju reglurnar settar inn á þá síðu á laugardagsmorgun en þó aðeins sjáanlegar með því að smella á hlekk neðst á forsíðunni. Eftir birtingu fréttar Túrista var hlekkurinn færður ofar á Visit Iceland og er því sýnilegri en áður. Covid.is var einnig uppfærð eftir umfjöllun Túrista.