Fleiri flugfélög skera niður flug til Íslands

Wizz air, easyJet, Vueling, Norwegian, British Airways og fleiri flugfélög eru nú að skera niður eða fella niður allt flug til Íslands.

Það stefnir í að það verði fámennt í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á næstunni. Mynd: Isavia

Þó Icelandair sé umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli þá voru það erlend flugfélög sem stóðu undir rúmlega helmingi allra áætlunarferða til og frá Keflavíkurflugvelli í júlí. Nú er hins vegar útlit fyrir að ferðum útlendu félaganna fækki hratt eftir að krafa var gerð um að allir færu í nokkurra daga sóttkví við komuna til landsins.

Þannig herma heimildir Túrista að flugfélögin easyJet, Norwegian, Vueling, Airbaltic, Wizz air og Transavia hafi í dag dregið úr eða fellt alveg niður Íslandsflug sitt á næstunni. Bætast þessi flugfélög í hóp með British Airways og Czech Airlines sem þegar hafa gert þess háttar ráðstafanir.

Túristi þekkir til að fleiri erlendra flugfélaga sem nú vega og meta hvort mögulegt sé að halda úti áætlunarferðum til Íslands á meðan krafan um sóttkví er algild.

Líkt og Túristi greindi frá í morgun þá voru að jafnaði fáir farþegar í þeim fimmtán þotum sem flugu til landsins í gær.