Fljúga fólki heim frá Íslandi

Forsvarsfólk flugfélaga mun ekki sjá hag í því að halda úti Íslandsflugi frá og með mánaðamótun. Þetta er mat forstjóra Airport Associates sem kallar eftir því að ferðafólk fari ekki í sóttkví.

Það eru aðallega farþegar á leið frá landinu sem nú eiga leið um Leifsstöð segir Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates.

„Flugfélögin eru núna að fljúga til landsins af því að þau eru með fullt af viðskiptavinum sem eru staddir á landinu og þurfa að komast til síns heima,“ sagði Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, í fréttum RÚV í gær. Fyrirtæki hans sinnir þjónustu við fjölda erlendra flugfélaga á Keflavíkurflugvelli.

Sigþór telur ljóst að ekkert flugfélag sjái möguleika á að halda úti flugferðum til Íslands þegar fimmtán, tuttugu eða kannski þrjátíu farþegar eru í hverri flugvél.

„Allt tal um það að það sé ekki búið að loka landinu er einfaldlega rangt. Landinu verður lokað eftir fyrsta september.“ segir Sigþór sem vill að ferðamenn verði ekki skyldaðir í sóttkví við komuna til landsins.

„Sóttvarnarlæknir er búinn að segja okkur alveg frá upphafi að vandamálið sé ekki útlendingar sem eru að heimsækja landið. Vandamálið felst í því að það eru Íslendingar og þeir sem eru að koma til lengri dvalar, þeir eru að smita inn í íslenskt samfélag. Við hefðum getað byrjað á að setja þá alla í sömu reglur og nú gilda, en halda lífii í ferðaþjónustunni með því að hleypa útlendingum inn í landið með því að skima,“ sagði Sigþór máli sínu til stuðnings.