Flýta sér til landsins áður en nýju reglurnar ganga í gildi

Það eru nítján komur á dagskrá Keflavíkurflugvallar á miðvikudaginn.

Frá Keflavíkurflugvelli. Mynd: Isavia

Ráðamenn þjóðarinnar kynntu seinnipartinn á föstudag hertar reglur sem kveða á um að allir verði að fara í sóttkví við komuna til landsins. Í kjölfarið fjölgaði bókunum hjá Icelandair og segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúa félagsins, að útlit sér fyrir að fólk sé að flýta för sinni til landsins.

Tíminn er þó knappur því frá miðnætti á morgun gilda hinar nýju hertu reglur. Og fyrsta daginn, nú á miðvikudag, er von á nítján farþegaþotum til landsins samkvæmt dagskrá Keflavíkurflugvallar.

Þar af eru átta á vegum Icelandair en auk þess sér félagið um leiguflug frá Tenerife þennan dag. Hinar komurnar eru á vegum erlendra flugfélaga en ekki liggur fyrir hvernig þau kynna breyttar reglur hér á landi fyrir farþegum sínum.

Hjá Icelandair var heimasíða félagsins hins vegar uppfærð um leið og nýju reglurnar höfðu verið kynntar. Ásdís segir að nú sé verið að hafa samband við farþega með tölvupósti þar sem þeir eru upplýstir um stöðu mála og þá möguleika sem þeir hafa varðandi breytingar. Einnig er brýnt fyrir farþegum að forskrá sig í skimun við komuna til landsins til að flýta fyrir þeirri aðgerð.