Fordæmi fyrir því að þrotabú flugfélags haldi lendingarleyfum

Íslenska ríkið eignast vörumerki Icelandair ef allt fer á versta veg hjá flugfélaginu. Óljósara er með möguleg veð ríkisins í lendingarleyfum í London og New Yok.

Flugvél kemur inn til lendingar á Heathrow flugvelli við London. Mynd: London Heathrow

Áhætta íslenska ríkisins af lánalínu til Icelandair Group verður að hámarki 108 milljónir dollara. Það jafngildir um fimmtán milljörðum króna á gengi dagsins. Icelandair fær þó aðeins að nýta þessa lánalínu í neyð, þ.e. ef rekstur félagsins gengur talsvert verr en áætlanir gera ráð fyrir.

„Er lánalínu með ábyrgð ríkisins ætlað að skapa aukið rekstraröryggi fyrir félagið, sem ætti að hafa jákvæð áhrif á vilja fjárfesta til að leggja félaginu til nýtt fé,“ segir til að mynda í frumvarpi fjármálaráðherra sem nú verður lagt fyrir Alþingi.

Veðin sem íslenska ríkið fær, samkvæmt frumvarpinu, er vörumerki og vefslóðir félagsins. Einnig verða lendingarheimildir í London og New York lagðar fram sem veð en þó með fyrirvara um að hægt sé að taka veð í þessum afgreiðslutímum.

Það eru reyndar mörg dæmi um að flugfélög hafi selt afgreiðslutíma sína á Heathrow flugvelli við London og það gerði til að mynda SAS fyrir nokkrum árum síðan. WOW kom sínum leyfum við London Gatwick líka í verð í hittifyrra.

Meira að segja þrotabú fá yfirráðarétt yfir flugafgreiðslutímum líkt og gerðir í kjölfar gjaldþrots Monarch flugfélagsins árið 2017. Um þann rétt var reyndar deilt en breskir dómstólar féllust á rétt skiptastjórans.

Þar með er ekki sagt að kröfuhafi geti leyst til sín afgreiðslutíma gjaldþrota flugfélags. Og samkvæmt því sem Túristi kemst næst eru afgreiðslutímar á evrópskum flugvöllum bara markaðsvara í Bretlandi. Annars staðar er þeim einfaldlega úthlutað til umsækjenda. Sá háttur er líka hafður á í Bandaríkjunum.

Það virðast því fullar ástæður fyrir því hjá fjármálaráðherra að setja fyrirvara við þessi mögulegu veð ríkisins gegn láninu til Icelandair.

Þess má geta að íslenska ríkið er nú þegar stærsti kröfuhafi Icelandair í gegnum Íslandsbanka og Landsbanka. Veð bankanna hjá Icelandair liggja meðal annars í eldri Boeing þotum, fasteignum og flugherminum í Hafnarfirði.