Gefast upp á áætlunarflugi til Íslands

Það eru blikur á lofti varðandi samgöngur til og frá landinu vegna kröfunnar um að allir flugfarþegar fari í sóttkví.

MYND: ISAVIA

Tékkneska flugfélagið Czech Airlines hefur að undanförnu flogið reglulega til Íslands frá Prag. Nú hefur félagið aftur á móti tekið úr sölu allar ferðir hingað til lands.

Heimildir Túrista herma að stjórnendur fleiri erlendra flugfélaga skoði nú að leggja af allt Íslandsflug vegna kröfunnar um að allir farþegar fari í sóttkví við komuna til landsins. Sú regla gildir í ótilgreindan tíma frá og með deginum í dag.

Síðastliðinn sólarhring hafa bæði dönsk og þýsk yfirvöld varað þegna sína við að ferðast til Íslands og er þá vísað í fyrrnefnda kröfu um allt að sex daga sóttkví.

Forsvarsfólk Icelandair hefur ekki gefið út hvort og þá með hvaða hætti félagið dregur úr flugi vegna nýju reglnanna.