Gera aðra tilraun til að halda úti Íslandsflugi frá Riga

Ungverska lágfargjaldaflugfélagið Wizz Air tekur upp þráðinn í flugi milli Lettlands og Íslands í haust.

Brátt geta farþegar á Keflavíkurflugvelli á ný valið á milli ferða tveggja flugfélaga til Riga í Lettlandi. MYND: GILLY / UNSPLASH

Stuttu áður en útbreiðsla Covid-19 lamaði flugsamgöngur í Evrópu þá skáru stjórnendur Wizz Air niður starfsemi félagsins í Riga, höfuðborg Lettlands. Þar með lögðust af áætlunarferðir Wizz Air frá Riga til Keflavíkurflugvallar.

Nú sjá forsvarsmenn ungverska lággjaldaflugfélagsins aftur á móti tækifæri í auknum umsvifum í Riga og ætla því að flytja eina af Airbus þotum félagsins þangað. Og um leið verður þráðurinn tekinn upp í flugi frá borginni til Íslands.

Fyrsta ferð er á dagskrá þann 16. október og þar með fær Airbaltic á ný samkeppni í flugi milli Lettlands og Íslands.

Riga er þriðja áfangastaðurinn sem Wizz Air bætir við leiðakerfi sitt frá Keflavíkurflugvelli. Í júlí hóf félagið að fljúga hingað frá Mílanó og innan skamms hefst svo Íslandsflug frá Dortmund í Þýskalandi.