Gistinæturnar álíka margar og árið 2012

Það er útlit fyrir að samdrátturinn í fjölda gistinátta á íslenskum hótelum hafi numið 47 prósentum í júlí.

Ferðafólk fyrir utan KEA hótelið á Akureyri. Mynd: Keahótelin

Bráðabirgðatölur Hagstofunnar gefa til kynna að gistinætur á íslenskum hótelum hafi verið um 269 þúsund í júlí. Það jafngildir samdrætti upp á 47 prósent miðað við sama tíma í fyrra.

Þegar horft er lengra aftur í tímann þá sést að í júlí 2012 voru hótelnæturnar álíka margar og þær voru nú. Í þeim mánuði komu hingað 112 þúsund erlendir ferðamenn en ekki liggur fyrir nákvæm talning Ferðamálastofu á fjöldanum í síðasta mánuði.

Spá Ferðamálastofu gerði ráð fyrir að fjöldinn í júlí yrði um fimmtungur af því sem var í fyrra eða um 45 þúsund erlendir ferðamenn. Það má því ljóst vera að Íslendingar hafi staðið undir miklu hærra hlutfalli gistinátta í júlí í ár í samanburði við sama mánuð fyrir átta árum síðan.