Gríðarlegt tap hjá SAS

Eins og við mátti búast var tapið hjá SAS verulegt síðustu mánuði. Það var þó minna en greinendur höfðu reiknað með og hlutabréfaverðið fór því á flug í morgun.

Þota SAS á flugi við Arlanda flugvöll í Stokkhólmi. MYND: AVINOR

Rekstrarárið hjá skandinavíska flugfélaginu SAS hefst í nóvember og lýkur í október. Þar með var tímabært í morgun að félagið birti uppgjör fyrir síðasta ársfjórðung en hann nær frá maí til júlí. Og niðurstaðan var eldrauð eins og við mátti búast vegna ástandsins sem Covid-19 hefur valdið.

Tapið af rekstri SAS nam þannig tveimur milljörðum króna á fjórðungnum. Það jafngildir nærri 32 milljörðum íslenskra króna. Í hefðbundnu árferði er þetta besti fjórðungur ársins hjá SAS en nú drógust tekjur fyrirtækisins saman um 81 prósent. Kostnaður lækkaði hlutfallslega minna eða um 67 prósent.

Afkoman var þó betri en greinendur höfðu gert ráð fyrir og hefur gengi hlutabréf í SAS hækkað um tíund nú í morgunsárið.

Framundan hjá SAS er útgáfa á nýju hlutafé og skuldabréfum og hafa stærstu eigendur félagsins, danska og sænska ríkið, skuldbundið sig til að kaupa bróðurpartinn af hvoru tveggja. Forstjóri SAS segir í tilkynningu nú í morgun að hann sé þakklátur fyrir þann stuðning.