Hafa losað sig við hlutabréf í fleiri flugfélögum en Icelandair

Par Capital Management hefur síðustu mánuði selt bréf í Icelandair. Sjóðurinn hefur líka dregið úr eign sinni á fleiri stöðum.

icelandair 767 757
MYND: ICELANDAIR

Þremur vikum eftir að Boeing MAX þotur voru kyrrsettar um heim allan þá eignaðist Par Capital Management 11,5 prósent hlut í Icelandair Group. En þessi bandaríski vogunarsjóður sérhæfir sig meðal annars í fjárfestingum í flugfélögum og ferðaþjónustufyrirtækjum vestanhafs.

Par Capital hélt svo áfram að fjárfesta í íslensku samsteypunni síðastliðið sumar og varð þar með stærsti hluthafinn.

Allt frá því í vor hefur sjóðurinn aftur á móti selt hluti sína í Icelandair Group og nemur hlutdeildin í dag 10,74 prósentum samkvæmt nýjasta hluthafalistanum. Samtals hefur sjóðurinn losaði sig við fimmtung bréfa sinna í Icelandair en á margfalt lægra gengi en þau voru keypt á.

Icelandair er þó ekki eina flugfélagið sem Par Capital hefur selt bréf í að undanförnu. Þannig sýnir samantekt síðunnar Gurufocus að hlutur sjóðsins í JetBlue, Air Alaska og Allegiant dróst saman á öðrum ársfjórðungi.

Aftur á móti bætti Par Capital þá við sig bréfum í Southwest og American Airlines.