Hafa tekið úr sölu allt flug milli Parísar og Íslands

Það ríkir ekki lengur samkeppni í flugi milli Íslands og höfuðborgar Frakklands. Nú er að sjá hvort Play skori Icelandair á hólm á Charles de Gaulle flugvelli í haust eða hvort Transavia hefji flug á ný til Íslands frá Orly.

Allt frá sumrinu 2007 hefur Icelandair att kappi við önnur flugfélög í áætlunarferðum til höfuðborgar Frakklands. MYND: JOHN TOWER / UNSPLASH

Eftir fall WOW air í fyrra þá fjölguðu stjórnendur fransk-hollenska flugfélagsins Transavia ferðunum til Íslands frá París. Auk þess hóf félagið flug hingað frá Amsterdam og nú í sumar bættust við vikulegar brottfarir frá frönsku borginni Nantes.

Nú er aftur á móti ekki lengur hægt að bóka flug með Transavia frá París til Íslands en ekki fást skýringar frá félaginu á þessari breytingu. En eins og staðan er núna þá er Icelandair eitt um áætlunarferðirnar héðan til Parísar.

Það er í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem félagið fær enga samkeppni á þeirri flugleið yfir sumarmánuðina. Fyrst frá Iceland Express, svo frá WOW og að lokum Transavia.

Forsvarsmenn Play boðuðu reyndar flug til Parísar þegar þeir sviptu hulunni af áformum félagsins í nóvember í fyrra. Og þar sem félagið hyggst hefja starfsemi nú í haust er ekki útilokað að Icelandair fái fljótt samkeppni á ný í flugi til höfuðborgar Frakklands.

Air France, stærsta flugfélag Frakklands, hefur ekki látið til sín taka á Keflavíkurflugvelli en Transavia er reyndar hluti af Air France/KLM samsteypunni. En núverandi áform stjórnenda fyrirtækisins ganga út á að efla lággjaldaflugfélagið Transavia á kostnað Air France.