Halda hótelum lokuðum

Hjá þremur stærstu hótelfyrirtækjum landsins verður áfram bið eftir því að allir gististaðir opni á ný.

Hótel KEA á Akureyri er eitt þeirra hótela sem áfram verður opið. MYND: KEAHÓTELIN

Erlendir ferðamenn stóðu undir níu af hverjum tíu gistinóttum sem bókaðar voru á íslenskum hótelum síðastliðið haust. Til samanburðar var vægi útlendinga rétt um fjörtíu af hundraði á dönskum hótelum og rétt um fimmtungur í Noregi. Íslensk hótel reiða sig því í miklu meira mæli á erlent ferðafólk en þau skandinavísku gera.

Bæði ráðamenn þjóðarinnar og forsvarsfólk ferðaþjónustunnar gera þó ekki ráð fyrir mörgum útlendingum til landsins á næstunni eftir að reglur um sóttkví voru hertar. Eftirspurn eftir hótelgistingu á landinu verður því líklega takmörkuð líkt og endurspeglast í áformum þriggja stærstu hótelfyrirtækja landsins.

Hjá Keahótelunum er til að mynda ráðgert að aðeins fjögur af tíu hótelum verði opin. Það er Hótel Borg og Skuggi Hótel í Reykjavík auk Hótel Kea á Akureyri og Vík Hótel Katla.

Íslandshótel verða með sex hótel opin og þar af tvö í höfuðborginni en í heildina reka Íslandshótel þrettán hótel.

Stjórnendur Icelandairhótelanna eru að endurskoða sínar áætlanir fyrir haustið að sögn Hildar Ómarsdóttur, forstöðumanns markaðs- og þróunarsviðs fyrirtækisins. Hún segir töluvert um afbókanir fyrir haustið og fullljóst að lítil eftispurn er eftir fjögurra til sex daga sóttkvíardvöl í Reykjavík.