Hefja Íslandsflug frá New York á ný en ekki frá Minneapolis

Bandaríska flugfélagið Delta gerir ráð fyrir nokkru minna framboði á flugi til Keflavíkurflugvallar næsta sumar.

Boeing 757 þota Delta á Keflavíkurflugvelli. MYND: DELTA AIR LINES

Bandaríska flugfélagið Delta flaug lengi vel til Íslands frá New York allt árið um kring og yfir sumarmánuðina frá Minneapolis. Síðastliðinn vetur gerði félagið hins vegar hlé á Íslandsflugi sínu frá New York en ætlunin var að taka upp þráðinn nú í vor frá þeirri borg og líka Minneapolis. Af því varð ekki vegna Covid-19.

Nú eru stjórnendur Delta að farnir að leggja drög að dagskrá næsta sumars og hún gerir ráð fyrir fimm áætlunarferðum í viku til Keflavíkurflugvallar frá JFK flugvelli í New York. Áður hefur félagið flogið hingað daglega yfir sumarmánuðina.

Það vegur þó aðeins upp á móti að nú er ætlunin að nota Boeing 767 breiðþotur í ferðirnar hingað. Þar taka fleiri farþega en Boeing 757 þoturnar sem Delta hefur hingað til notað í ferðirnar til Íslands.

Aftur á móti ætlar bandaríska flugfélagið ekki að hefja flug til Íslands á ný frá Minneapolis samkvæmt úttekt Routes Online.

Þar með stefnir í að Icelandair verði aftur eitt á þeirri flugleið. En áætlanir stjórnenda félagsins gera einmitt ráð fyrir minnkandi samkeppni næstu ár líkt og fram kemur í kynningu sem gefin var út í síðustu viku í tengslum við komandi hlutafjárútboð félagsins.