Hefur ekki áhrif á hlutafjárútboðið

Hjá Icelandair er unnið að lokafrágangi á fjárfestingakynningu í tengslum við boðað hlutafjárútboð. Forstjóri Icelandair samsteypunnar segir hertar sóttvarnarreglur ekki breytta neinu varðandi það ferli.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. MYND: ICELANDAIR

„Allt frá því í vor höfum við gert ráð fyrir því að þetta gangi í sveiflum og að framleiðslan og tekjurnar verði tiltölulega litlar í all langan tíma. Þessi ákvörðun stjórnvalda hefur því ekki áhrif á áform okkar um hlutafjárútboð,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, um ákvörðun stjórnvalda að skylda alla sem til landsins koma að fara í fjögurra til fimm daga sóttkví.

Bogi bendir á að á á haustin og veturna þá stoppi ferðamenn í styttri tíma en á sumrin og því segi það sig sjálft að þessar hertu reglur munu hafa áhrif á bókunarflæðið og eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað. Sérstaklega ef þetta dregst langt inn á haustið.

„Við erum vel í stakk búin til að takast á við þessar breytingar og munum aðlaga framleiðsluna að eftirspurnaráhrifunum sem þetta veldur,“ bætir Bogi við.