Hlutfall vopnaðra flugfarþega þrefaldast

Vopnaburður er almennur víða í Bandaríkjunum og þar í landi reynir nú hærra hlutfall farþega að komast í háloftin með skotvopnin innanklæða eða í handfarangri.

Það voru gerðar upptækar 4.432 byssur við vopnaleit á bandarískum flugvöllum í fyrra. Þar af voru 3.865 hlaðnar og var þetta enn eitt metárið þegar kemur að vopnaburði flugfarþega vestanhafs.

Þetta met verður ósennilega slegið í ár enda eru miklu færri á ferðinni núna vegna Covid-19. Þannig fækkaði farþegum á bandarískum flugvöllum um 75 prósent í nýliðnum júlí í samanburði við sama tíma í fyrra.

Það sem vekur þó athygli er að vægi vopnaðra farþega hækkaði umtalsvert í síðasta mánuði samkvæmt uppgjöri Flugöryggisstofnunnar Bandaríkjanna. Þá fundust nefnilega að jafnaði 15,3 byssur á hverja milljón farþega. Hlutfallið var þrefalt lægra eða 5,1 byssa á hverja milljón farþega í júlí í fyrra.

Langflestar farþegar eru gripnir á flugvöllum í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem vopnaburður er almennur, til að mynda í Georgíu og Texas. Lágmarkssekt fyrir að vera gripinn með óhlaðna byssu er 2.050 dollarar sem jafngildir um 180 þúsund krónum. Sektin tvöfaldast ef kúlur eru í skotvopninu.