Horfa til þess að ná sömu stöðu og áður en samkeppnin harðnaði

Sérfræðingar Icelandair gera ráð fyrir að farþegum á leið milli Evrópu og Bandaríkjanna fækki verulega vegna áhrifa Covid-19. Í kjölfarið gera þeir ráð fyrir að markaðshlutdeild félagsins aukist og tekjurnar tvöfaldist í flugi milli helstu áfangastaða.

Icelandair var lengi eina norræna flugfélagið sem flaug til Boston. Mynd: Lance Anderson / Unsplash

Hlutafjárútboð Icelandair Group hófst formlega á miðnætti þegar samsteypan sendi frá sér fjárfestakynningu. Þar er horft yfir farinn veg og spáð í spilin næstu ár.

Óhætt er að segja að í þessu söluplaggi sýni stjórnendur flugfélagsins meira á spilin en þeir hafa gert í langan tíma. Dæmi um það eru upplýsingar um markaðshlutdeild fyrirtækisins í flugi til Bandaríkjanna. Í kynningunni er tekið dæmi af þróuninni í flugi milli Kaupmannahafnar og Boston en þetta eru þær borgir sem þotur Icelandair fljúga einna oftast til.

Þannig var Icelandair lengi eina norræna flugfélagið í Boston líkt og Túristi fjallaði um á sínum tíma. Síðan fékk félagið samkeppni þar í borg og nú er borgin til að mynda hluti af flugáætlun bæði SAS og Norwegian.

Samkeppnin hafði þær afleiðingar að hlutdeild Icelandair á flugleiðinni Boston til Kaupmannahöfn hríðféll. Þannig var hún í kringum fjörtuíu prósent á fyrri helmingi síðasta áratugar en var komin niður í fjórtán prósent í fyrra. Farþegafjöldinn jókst á sama tímabili umtalsvert í takt við auknar flugumferð.

Nú er það mat sérfræðinga Icelandair að þróunin næstu misseri verði sú að samkeppnin minnki á ný vegna minni eftirspurnar eftir ferðalögum á heimsvísu. Markaðurinn mun því skreppa saman og á ný munu fjórir af hverjum tíu farþegum á leið milli Boston og Kaupmannahafnar fljúga með Icelandair. Tekjur Icelandair af þessari flugleið verði þá ríflega tvöfalt hærri en þær voru í fyrra.

Í þessu samhengi má rifja upp að SAS ætlar að nota nýjar langdrægar Airbus þotur, A321 LR, í flug frá Kaupmannahöfn til Boston. Þar á bæ eru sem sagt uppi áætlanir um að setja aukin kraft í þessa flugleið. Forsvarsfólk Icelandair bindur þá vonir við að þau áform gangi ekki eftir.

Túristi mun birta fleiri fréttir í dag og næstu daga upp úr þessari nýju fjárfestakynningu.