Icelandair sker niður í september

Sú aukning sem boðuð var í flugáætlun Icelandair í september hefur verið dregin tilbaka.

Til Óslóar ætlaði Icelandair að fljúga átta sinnum í viku frá og með næstu mánaðamótum. Nú verða ferðirnar færri en í gær tilkynntu norsk stjórnvöld að Ísland væri komið á rauða lista vegna fjölgunar Covid-19 smita.

Evrópsk flugfélög breyta flugáætlunum sínum reglulega þessa dagana og þar er Icelandair engin undantekning. Stjórnendur félagsins gerðu þannig ráð fyrir því að umsvifin myndu aukast jafnt og þétt á næstunni og áttu ferðirnir í síðustu viku september að verða ríflega þriðjungi fleiri en nú er líkt og Túristi greindi frá í gærmorgun.

Þar með hefðu umsvifin í síðustu viku september jafnast á við 37 prósent af áætlun Icelandair fyrir ári síðan. Til samanburðar eru afköst félagsins í dag rétt um fimmtungur af því sem var í fyrra.

Nú hefur forsvarsfólk Icelandair aftur á móti dregið verulega úr áformum næsta mánaðar og var starfsmönnum tilkynnt um það seinni partinn í gær. Óvissa um opnun landamæra og auknar ferðatakmarkanir skýra þessar breytingar.

Frá því í gær hafa því rúmlega eitt hundrað áætlunarferðir Icelandair verið felldar niður fyrstu fjórar vikurnar í september samkvæmt talningu Túrista.

Munar þar mestu um að áform um að taka upp þráðinn í flug til fleiri borga í Norður-Ameríku ganga ekki eftir. Auk þess verður tíðni ferða til fjölda evrópskra áfangastaða ekki aukin þegar líður á næsta mánuð líkt og upphaflega var gert ráð fyrir.

Þar með stefnir í að umsvif Icelandair í september verði á pari við ágúst eða um fimmtungur af því sem var í sumarlok í fyrra. Í farþegum talið er niðursveiflan ennþá meiri því nú eru þoturnar ekki eins þéttsetnar og áður.