Samfélagsmiðlar

Icelandair sker niður í september

Sú aukning sem boðuð var í flugáætlun Icelandair í september hefur verið dregin tilbaka.

Til Óslóar ætlaði Icelandair að fljúga átta sinnum í viku frá og með næstu mánaðamótum. Nú verða ferðirnar færri en í gær tilkynntu norsk stjórnvöld að Ísland væri komið á rauða lista vegna fjölgunar Covid-19 smita.

Evrópsk flugfélög breyta flugáætlunum sínum reglulega þessa dagana og þar er Icelandair engin undantekning. Stjórnendur félagsins gerðu þannig ráð fyrir því að umsvifin myndu aukast jafnt og þétt á næstunni og áttu ferðirnir í síðustu viku september að verða ríflega þriðjungi fleiri en nú er líkt og Túristi greindi frá í gærmorgun.

Þar með hefðu umsvifin í síðustu viku september jafnast á við 37 prósent af áætlun Icelandair fyrir ári síðan. Til samanburðar eru afköst félagsins í dag rétt um fimmtungur af því sem var í fyrra.

Nú hefur forsvarsfólk Icelandair aftur á móti dregið verulega úr áformum næsta mánaðar og var starfsmönnum tilkynnt um það seinni partinn í gær. Óvissa um opnun landamæra og auknar ferðatakmarkanir skýra þessar breytingar.

Frá því í gær hafa því rúmlega eitt hundrað áætlunarferðir Icelandair verið felldar niður fyrstu fjórar vikurnar í september samkvæmt talningu Túrista.

Munar þar mestu um að áform um að taka upp þráðinn í flug til fleiri borga í Norður-Ameríku ganga ekki eftir. Auk þess verður tíðni ferða til fjölda evrópskra áfangastaða ekki aukin þegar líður á næsta mánuð líkt og upphaflega var gert ráð fyrir.

Þar með stefnir í að umsvif Icelandair í september verði á pari við ágúst eða um fimmtungur af því sem var í sumarlok í fyrra. Í farþegum talið er niðursveiflan ennþá meiri því nú eru þoturnar ekki eins þéttsetnar og áður.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …