Icelandair stefnir að 37 prósent afköstum í haust

Flugáætlun Icelandair gerir ráð fyrir fjölgun brottfara næstu vikur en áfram eru umsvifin miklu minni en í fyrra.

Eftir að flugsamgöngur milli Evrópuríkja hófust á ný um miðjan júní þá hefur Icelandair, líkt og fleiri flugfélög, birt uppfærða flugáætlun á nokkurra vikna fresti. En til marks um óvissuna sem ennþá ríkir vegna Covid-19 þá hafa þessi áform tekið töluverðum breytingum. Þannig gerði áætlun félagsins, sem birt var um miðjan júní, ráð fyrir mun meiri umsvifum yfir hásumarið en raunin varð.

Nú liggur fyrir hvernig stjórnendur Icelandair sjá fyrir sér næstu sex vikur og á þessu tímabili er gert ráð fyrir þónokkrum viðbótum frá því sem nú er. Til marks um það þá eru 102 áætlunarferðir á dagskrá Icelandair síðustu vikuna í september. Það er 37 prósent af því sem var á sama tíma í fyrra samkvæmt talningum Túrista.

Til samanburðar eiga þotur Icelandair að taka 76 sinnum á loft frá Keflavíkurflugvelli í næstu viku. Það er rétt um fimmtungur af því sem var fyrir ári síðan.

Samdrátturinn í farþegafjölda er svo líklegast ennþá meiri því sætanýting í flugi er lág um þessar mundir. Reyndar var nýtingin mun hærri hjá Icelandair í júlí en hjá Finnair og SAS.

Skýringin á því gæti reyndar legið í fyrrnefndum breytingum á flugáætlun því þegar ferðir eru felldar niður þá eru margir farþegar fluttir yfir í næstu brottför. Þar með þéttist bekkurinn í þeim ferðum sem eftir standa.

Það sem þyngir einnig rekstur flugfélaga nú um stundir er sú staðreynd að þau hafa gefið út ógrynni af inneignarnótum í heimsfaraldrinum. Þar með sitja sífellt fleiri í farþegarýminu sem ekki færa flugfélögunum nýjar tekjur. Kostnaðurinn við að flytja fólk milli staða fer þó hvergi líkt og IATA, alþjóðasamtök flugfélaga, bentu nýverið á.

Í því samhengi má rifja upp að á fyrri helmingi ársins gaf Icelandair út inneignarbréf fyrir 9,1 milljarð króna. Það jafngildir fjórðungi af farmiðasölu fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi í fyrra.