Kaupa tólf MAX þotur í stað sextán

Icelandair Group hefur náð samkomulagi við Boeing og helstu kröfuhafa félagsins.

Ein af MAX þotum Icelandair. Mynd: Berlin Airport

Icelandair Group hefur nú undirritað samninga við alla kröfuhafa og náð endanlegu samkomulagi við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing vegna kyrrsetningar MAX flugvéla. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gærkvöld.

Sem fyrr eru efnisatriði samkomulagsins við Boeing trúnaðarmál en það felur í megindráttum í sér að Icelandair fellur frá kaupum á fjórum MAX þotum. Það þýðir að flugfélagið mun samtals kaupa tólf þess háttar flugvélar af Boeing. Helmingur þeirra er nú þegar í flota Icelandair og þrjár til viðbótar hafa verið tilbúnar til afhendingar allt frá því að MAX þotur voru kyrrsettar í mars í fyrra.

Samkomulagið við Boeing gerir jafnframt ráð fyrir að frekari bótum vegna þess tjóns sem kyrrsetning þotanna hefur haft á rekstur Icelandair. Félagið hefur í tvígang fengið bætur frá Boeing vegna málsins og hefur leynd ríkt um upphæðirnar. Þannig voru bæturnar meðal annars færðar inn sem farþegatekjur í fyrra sem gerir það ómögulegt að sjá hver fargjaldaþróun Icelandair var eftir fall helsta keppinautarins, WOW air.

Gert er ráð fyrir að þessar sex þotur sem eftir standa verði afhentar á tímabilinu frá öðrum ársfjórðungi næsta árs og fram til fyrsta ársfjórðungs 2022.

„Samkomulagið styrkir lausafjárstöðu Icelandair Group og stuðlar að auknum sveigjanleika þegar kemur að skipulagi flotamála á næstu árum,“ segir í tilkynningu Icelandair Group.

Í ljósi þess að aðrar þotur í flota Icelandair eru komnar til ára sinna má gera ráð fyrir að stjórnendur félagsins birti í komandi fjárfestakynningu sýn sína á hvernig floti félagsins verður endurnýjaður í nánustu framtíð.

Til viðbótar við samkomulagið við Boeing náði Icelandair samkomulagi við kröfuhafa um skilmálabreytingar. Þessir samningar taka mið af því að laga afborganir að væntu sjóðstreymi frá rekstri samsteypunnar. Meðal helstu kröfuhafa eru Íslandsbanki og Landsbanki.

En þessir tveir bankar koma líka að útfærslu lánalínu frá íslenskum stjórnvöldum til Icelandair. Forsenda lánveitingarinnar er að komandi hlutafjárútboð gangi upp.

Stjórnendur Icelandair áætla að birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði og tímalínu á næstu dögum.