Keflavíkurflugvöllur verði miðstöð fyrir Grænlandsferðir

Stjórnendur Icelandair samteypunnar sjá tækifæri í að auka Grænlandsflug félagsins en þó ekki frá Reykjavíkurflugvelli.

airicelandconnect
Stjórnendur Icelandair sjá tækifæri í að flytja Grænlandsflugið úr Vatnmýrinni og út á Keflavíkurflugvöll.

Allar áætlunarferðir Air Iceland Connect til Grænlands eru í dag farnar frá Reykjavíkurflugvelli. Það helgast af því að miðstöð innanlandsflugsins er í Vatnsmýrinni enda nýtir félagið sömu flugvélar og mannskap í ferðirnar innanlands og til Grænlands líkt og Árni Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri, benti á hér á Túrista í lok síðasta árs.

Rekstur systurfélaganna Air Iceland Connect og Icelandair var svo sameinaður í byrjun þessa árs og nú telja stjórnendur þeirra að sóknarfæri þess fyrrnefnda liggi í auknu Grænlandsflugi. En ekki lengur frá Reykjavík heldur frá Keflavíkurflugvelli.

„Grænlenski markaðurinn er spennandi vaxtarmöguleiki fyrir Icelandair því starfsstöð félagsins á Keflavíkurflugvelli er vel staðsett til að vera höfn fyrir grænlenska ferðaþjónustu,“ segir í nýrri fjárfestakynningu Icelandair Group.

Þar er jafnframt bent á að þegar yfirstandandi uppbyggingu flugvallarmannvirkja á Grænlandi ljúki árið 2023 þá verði landið mun betur í stakk búið til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna.

Rekstur Air Iceland Connect hefur verið þungur síðustu ár. Þannig nam heildartap félagsins, fyrir skatt, samtals 2,2 milljörðum króna síðustu fimm ár. Í fyrra náði félagið að rétta úr kútnum og nam hagnaðurinn þá 125 milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.

Meðal þeirra aðgerða sem stjórnendur þess gripu til í fyrra var að fækka flugvélum og ferðum. Þannig dróst sætaframboð félagsins saman um fimmtung í fyrra og farþegum fækkaði um tólf prósent.

Ekki kemur fram í fyrrnefndri fjárfestakynningu hvað áhrif það hefði á innanlandsflugið ef áætlunarferðir Air Iceland Connect flytjast til Keflavíkur.