Keppinautar Icelandair Group ekki beðnir um álit

Það er ekki að sjá á frumvarpi fjármálaráðherra að fimmtán milljarða króna lánalína til Icelandair Group takmarkist við stuðning við rekstur millilandaflugs. Starfsemi fyrirtækisins er víðtæk og félagið er í samkeppni við fjölda íslenskra fyrirtækja. Fjárlaganefnd hefur þó ekki óskað eftir umsögnum frá þeim.

Mynd: Berlin Airport

Alþýðusamband Íslands, Ferðamálastofa, BSRB, Isavia og stóru bankarnir þrír eru meðal þeirra átján aðila sem fjárlaganefnd hefur óskað eftir áliti frá í tengslum fimmtán milljarða króna lánalínu hins opinbera til Icelandair Group.

Enginn af núverandi keppinautum samsteypunnar hér á landi er aftur á móti beðinn um umsögn. Reyndar er óskað eftir áliti frá Play en það félag er ekki ennþá komið með flugrekstrarleyfi.

Flugrekstur flugfélagsins Ernis á sér aftur á móti langa sögu og það fyrirtæki á í samkeppni við Air Iceland Connect, dótturfélag Icelandair, í innanlandsflugi. Nafn Ernis er þó ekki að finna á lista þeirra sem fjárlaganefnd vill heyra í áður en frumvarpið um ríkisábyrgðina verður samþykkt.

Þar er heldur ekki að finna allar þær ferðaskrifstofur sem etja kappi við Vita, dótturfélag Icelandair Group, í sölu á utanlandsferðum. Icelandair sjálft er svo einnig stórtækt í sölu á pakkaferðum fyrir Íslendinga út í heim.

Innan Icelandair Group er líka Iceland Travel en sú ferðaskrifstofa sérhæfir sig í skipulagningu Íslandsferða. Á því sviði er samkeppnin hörð enda fjöldi íslenskra fyrirtækja sem starfar á þeim markaði. Á þá staðreynd er ekki minnst á í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka ferðaþjónustunnar um ríkislánið. Í staðinn hvetja samtökin til þess að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Fleiri dótturfélög Icelandair Group eiga í beinni samkeppni hér heima. Á sviði vöruflutninga er Icelandair Cargo til að mynda stórtækt. Air Atlanta og Bláfugl eru líka á þeim markaði.

Flugþjónustufyrirtækið IGS er enn eitt dótturfélagið sem starfar á samkeppnismarkaði og ennþá á Icelandair Group fjórðungs hlut í Icelandair hótelunum, næst stærsta hótelfyrirtæki landsins.

Túristi hefur óskað eftir svörum frá Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, á því afhverju ekki er óskað eftir umsögnum frá þeim íslensku fyrirtækjum sem í dag eiga í samkeppni við dótturfélög Icelandair Group.