Krepputal verður að minnka

Veitinga- og ferðaþjónustufólk í Noregi býr við mun stærri heimamarkað en kollegar þeirra á Íslandi. Engu að síður er staða norskra fyrirtækja snúin en viðskiptaráðherra landsins biður fólk um að hugsa í lausnum.

Verk Ragnar Kjartanssonar fer ekki framhjá nokkrum manni sem lendir á flugvellinum í Bergen. Nú eru það þó aðallega Norðmenn sjálfir sem þurfa að velta þessari spurningu fyrir sér. MYND: AVINOR

„Þetta er hinn nýi veruleiki og við verðum að finna leið til að lifa með honum,“ sagði Iselin Nybø, viðskiptaráðherra Noregs, á fundi með ferða- og veitingageiranum í Bergen í lok síðustu viku. Hún bað fundargesti um hætta að tala um krísu og horfast frekar í augu við núverandi stöðu samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins.

Af fréttum að dæma þá kom Nybø sjálf ekki með neinar lausnir en hrósaði þó forsvarfólki ferðamálaráðs Bergen fyrir að bregðast hratt við breyttum aðstæðum. Vísaði hún þar til þess að ferðamálaráðið hefur þegar sett í loftið markaðsherferð fyrir næsta ár.

Ráðherrann gaf ekki út nein loforð á fundinum um áframhaldandi stuðning við norsk fyrirtæki vegna áhrifa Covid-19 á reksturinn.

Sumarvertíðin hjá mörgum veitinga- og ferðaþjónustufyrirtækjum í Bergen og nágrenni gekk vel í ár enda ferðuðust Norðmenn að mestu innanlands að þessu sinni.

Segja má að staða íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja sé ennþá snúnari en þeirra norsku. Þau íslensku reiða sig nefnilega miklu meira á erlenda gesti. Allt árið í fyrra stóðu þannig Norðmenn sjálfir undir tveimur af hverjum þremur hótelgistingu í Bergen og nágrenni á meðan hlutfall íslenskra hótelgesta á Norðurlandi var rétt um fimmtungur.