MAX þoturnar skrefi nær því að komast í loftið á ný

Í byrjun næsta mánaðar ætla kanadísk yfirvöld að gera prófanir MAX þotunum umdeildu og munu evrópsk flugmálauyfirvöld taka þátt í þeim.

Icelandair hafði fengið sex MAX þotur afhentar þegar allar flugvélar af þeirri tegund voru kyrrsettar í mars í fyrra. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Flugöryggisstofnun Evrópu ætlar að senda flugmenn til Kanada til að taka þátt í prófunum þarlendra yfirvalda á Boeing MAX þotunum. Ráðgert er að þessi tilraunaflug verði á dagskrá þann sjöunda september. Þar með þurfa viðkomandi flugmenn að fara í flughermi í Bretlandi strax eftir helgi samkvæmt frétt Bloomberg.

Þar segir að þetta sé stór áfangi í því að aflétta kyrrsetningu þotanna en hún hefur nú varað í meira en sautján mánuði. Á þeim tíma hafa verið gerðar breytingar á þotunum og þá helst á stýrikerfi þeirra enda eru tvö mannskæð flugslys rakinn til þess búnaðar.

Í frétt Bloomberg er eftir sérfræðingi í fluggeiranum að prófanirnar í Kanada séu vísbending um að yfirvöld í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu verði samstíga í að heimila notkun flugvélanna á ný. Fyrstu tilraunaflug Bandaríkjamanna með MAX þoturnar fóru fram í sumar.

Boeing MAX þotum er ætlað stórt hlutverk hjá Icelandair næstu ár líkt og fram kemur í nýrri fjárfestakynningu. Á næsta ári er þannig gert ráð fyrir að níu af tuttugu og þremur þotum félagsins verði af gerðinni Boeing MAX. Árið 2022 bætast svo við þrjár þess háttar flugvélar.