Miklu fleiri íslenskir hótelgestir í öllum landshlutum nema á Suðurnesjum

Ferðalög Íslendinga líkt og fleiri þjóða takmörkuðust að miklu leyti við ferðir innanlands í sumar. Þess eru greinileg merki í nýjum tölum Hagstofunnar.

Ásókn Íslendinga í hótelgistingu á Norðurlandi margfaldaðist í júlí. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Íslendingar stóðu undir um sjö af hverjum tíu gistinóttum á íslenskum gististöðum í júlí. Í fyrra var vægi heimamanna innan við fimmtungur af heildinni samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Skýringin á þessari skrifast á Covid-19 og þær ferðatakmarkanir sem nú gilda víða um heim vegna útbreiðslu veirunnar.

Þegar eingöngu er horft til hótela þá sést að íslenskum hótelgestum fjölgaði verulega um allt land í júlí. Langmest á Norður- og Austurlandi þar sem aukningin var margföld. Í öðrum landshlutum var hún einnig umtalsverð en þó ekki á Suðurnesjum. Þar fækkaði íslensku gestunum um helming.

Megin skýringin á því liggur væntanlega í samdrætti í utanlandsferðum. Að þessu sinni hafa því miklu færri bókað sér gistingu í námunda við Keflavíkurflugvöll til að ná góðum nætursvefni fyrir morgunflug úr landi.