Mun ekki hika við að mæla með Hótel Rangá á ný

Breska ferðaskrifstofan Discover the World hefur lengi boðið viðskiptavinum sínum upp á dvöl á Hótel Rangá. Á því verður engin breyting en loka þurfti hótelinu tímabundið vegna Covid-19 smita.

clive turisti is
Clive Stacey, eigandi Discover the World. MYND: AÐSEND

Hótel Rangá hefur verið í umræðunni að undanförnu eftir að sjö gestir og einn starfsmaður hótelsins reyndust smitaðir af kórónaveirunni um miðjan mánuðinn. Í kjölfarið var hótelinu lokað tímabundið. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, nema tveir, þurftu svo að fara svokallaða smitgát um síðustu helgi eftir að hafa snætt á hótelinu.

Clive Stacey, eigandi bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World, hefur lengi boðið viðskiptavinum sínum upp á dvöl á Hótel Rangá og fjöldi þeirra hefur einmitt gist á hótelinu nú í sumar.

„Fyrr í sumar varði ég eftirminnilegri viku í ferðalag um Ísland þar sem ég skoðaði hótel og mat aðbúnað við ferðamannastaði áður en við myndum á ný senda viðskiptavini okkar til Íslands,“ segir Stacey. Hann segist hafa verið sérstaklega hrifinn af þeim aðgerðum sem gripið hafði verið til á Hótel Rangá til að tryggja að öryggi gesta.

„Um leið og hótelið opnar á ný þá mun ég ekki hika við að mæla með Rangá fyrir viðskiptavini okkar og ég mun jafnvel leggja leið mína þangað sjálfur,“ segir Stacey.

Hann bætir því við að hann sendi Friðriki Pálssyni, eiganda Hótel Rangár, og starfmönnum stuðningskveðjur.