Nefna WOW bara einu sinni á nafn

Það er engum blöðum um það að fletta að hraður uppgangur WOW air setti verulegt strik í reikninginn hjá Icelandair. Nafn félagsins kemur þó bara einu sinni sinni fyrir í nýrri fjárfestakynningu Icelandair.

Airbus þota WOW air í London. MYND: LONDON STANSTED

Þegar mest lét flutti WOW air orðið álíka marga farþega og Icelandair. Og óhætt er að segja að þessi miklu umsvif flugfélags Skúla Mogensen hafi haft mjög neikvæð áhrif á rekstur Icelandair. Þannig tapaði félagið nærri sjö milljörðum króna árið 2018 en það ár var almennt mjög gott í flugrekstri.

Samkeppni félaganna tveggja var hörð og til marks um það þá hóf Icelandair að fljúga til nokkurra borga árin 2017 og 2018 sem WOW air hafði áður setið eitt að. Icelandair stokkaði líka upp sölustarfsemi sína og var þá horft til þess árangurs sem WOW air hafði náð án þess að reka söluskrifstofur út í heimi. Öfugt við það sem Icelandair hefur alltaf gert.

Rekstur WOW gekk þó ekki upp á endanum og undir það síðasta fékk félagið að safna upp verulegum skuldum hjá Isavia. Engu að síður er ljóst að Icelandair átti í töluverðum vandræðum með samkeppnina.

Því vekur það athygli að heiti þessa gamla keppinautar kemur aðeins einu sinni fyrir í nýrri kynningu Icelandair í tengslum við komandi hlutafjárútboð. Og þessi eina tilvísun kemur ekki fyrir í kafla um rekstur félagsins heldur aðeins þegar farið er yfir ferilskrá Tómasar Ingasonar, eins af framkvæmdastjórum Icelandair. En Tómas var tvívegis ráðinn til WOW en stoppaði stutt í bæði skiptin.

Áform Play eru svo sem ekki nefnd sérstaklega heldur en í fyrrnefndri fjárfestakynningu er þó að finna mat sérfræðinga Icelandair á því hversu langan tíma það tæki fyrir nýtt íslenskt flugfélag að ná fótfestu. Er þá horft til flugfélags sem býður upp á tengiflug milli Evrópu og Norður-Ameríku líkt og WOW air var með og forsvarsmenn Play horfa líka til.

Samkvæmt mati Icelandair þá yrði vöxtur þess háttar keppinautar hægur fyrstu mánuðina vegna takmarkana á flugi nýliða til Bandaríkjanna. Síðan tæki við tímabil þar sem flækjurnar í rekstri skiptistöðvar myndu koma fram. Auk þess telja stjórnendur Icelandair að það myndi taka fimm til tíu ár fyrir nýtt flugfélag að fá heppilega afgreiðslutíma á mikilvægustu flugvöllunum út í heimi.

Síðastnefnda fullyrðingin er nokkuð sérstök í ljósi þess að sérfræðingar Icelandair spá almennt töluverðri niðursveiflu í farþegaflugi næstu ár. Ein af afleiðingum þess ætti einmitt að vera sú að lausum afgreiðslutímum á flugvöllum fjölgi.