Norwegian þarf meira fé

Miklar afskriftir á skuldum, nýtt hlutafé og ríkislán duga Norwegian flugfélaginu ekki til að komast í gegnum veturinn.

MYND: NORWEGIAN

Farþegatekjur Norwegian féllu um 99 prósent á öðrum ársfjórðungi og rektsrartap félagasins, fyrir skatt, nam einum og hálfum milljarði norskra króna. Það jafngildir 23,5 milljörðum íslenskra króna.

Til viðbótar eru horfurnar í rekstri flugfélagsins óljósar líkt og fram kom í máli forstjórans, Jakob Schram, á fundi með fjárfestum í morgun. Hann sagði eftirspurn eftir flugi til og frá Noregi vera litla en rekstur Norwegian í öðrum löndum liggur að mestu í dvala nú um stundir.

Til marks um það þá fljúga þotur félagsins aðeins til Keflavíkurflugvallar frá Ósló þessa dagana en ekki frá Alicante og Barcelona eins og upphaflega hafði verið lagt upp með.

Norwegian fór í gegnum umfangsmikla fjárhagslega endurskipulagninu í vor. Þá eignuðust í raun lánadrottnar, aðallega flugvélaleigur, félagið gegn því að afskrifa kröfur. Á sama tíma fór félagið í hlutafjárútboð sem skilaði því um sex milljörðum íslenskra króna.

Þar með uppfyllti Norwegian loks skilyrði norskra stjórnvalda fyrir ríkisláni upp á þrjá milljarða norskra króna eða 47 milljarða íslenskra króna.

Þrátt fyrir þessa innspýtingu er útlit fyrir að Norwegian þurfi á meira fé að halda til að koma sér í gegnum veturinn. Þetta staðfesti Schram forstjóri í morgun. Hann sagði fyrirtækið eiga í viðræðum við stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð um fjárhags stuðning. En hingað til hafa ráðamenn í þessum löndum ekki gefið nein vilyrði fyrir láni til Norwegian. Aftur á móti ætla ríkin tvö að halda áfram að styðja við rekstur SAS.

Þrátt fyrir þrönga stöðu þá er Norwegian að fjölga ferðum því í september er áformað að tuttugu og fimm þotur félagsins verði á flugi. Það er aukning um fimm flugvélar frá því sem nú er.

Norwegian hefur lengi veitt Icelandair harða samkeppni í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku líkt og Túristi rakti fyrr í vor. Framtíðarspá Icelandair gerir aftur á móti ráð fyrir minni samkeppni á helstu flugleiðum frá Bandaríkjunum næstu ár. Hvort það gangi eftir ræðst að einhverju leyti af því hvort Norwegian fær aukið fé í vetur eða ekki.