Samfélagsmiðlar

Nú þarf tekjuspá Icelandair að ganga eftir

Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur Icelandair Group sér vonir um að meðalfargjöldin myndu hækka. Það gekk ekki eftir og félagið kom út í mínus í fyrsta sinn í mörg ár. Viðspyrna félagsins eftir Covid-19 byggir á hækkandi einingatekjum en þá þurfa fargjöldin að mjakast upp á við.

Tekjur Icelandair á hvern floginn kílómetra (RASK) hafa farið lækkandi síðustu ár. Þær voru til að mynda ellefu prósent lægri árið 2018 í samanburði 2015. Nú gerir spá sérfræðinga Icelandair aftur á móti ráð fyrir hækkun á þessum lið. Þannig verða þessar einingatekjur sautján prósentum hærri árið 2024 en þær voru á síðasta ári samkvæmt nýrri fjárfestakynningu félagsins.

„Við teljum líklegt að flest flugfélög muni einbeita sér að því að styrkja „hub starfsemi“ sína næstu árin. Þetta mun valda færri beinum flugum á N-Atlantshafsmarkaðnum sem mun gera „1-stop“ vöru okkar, í gegnum Ísland, mjög álitlega og þar með hækka RASK,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, þegar hann er beðinn um nánari útlistingu á spá félagsins um hækkun einingatekna. 

Bogi bendir á fleiri atriði sem styðji við hækkandi einingatekjur. Til að mynda hafi fjárfesting í mannafla og hugbúnaði á sviði tekjustýringar verið byrjuð að skila skýrum bata fyrir heimsfaraldurinn og gert sé ráð fyrir að áframhaldandi þar á. Einnig er ætlunin að fá inn meiri þóknanir fyrir sölu á þjónustu þriðja aðila. Til að mynda af bókunum á hótelherbergjum og ferðaþjónustu. Segir Bogi að áfram verði fjárfest í stafrænum lausnum til að ná þessu marki.

Forstjórinn undirstrikar að með betri stýringu leiðarkerfisins þá náist fram bæting í bæði einingakostnaði og -tekjum. „Fjarlægð hefur áhrif á þessar stærðir og þannig kom flugið til San Francisco illa út þar sem fargjöldin voru of lág miðað við flugtíma.“ 

Ekki sannfærður um að hærri fargjöld skili sér til Icelandair

Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs, sem rýnir reglulega í rekstur flugfélaga í skandinavísku viðskiptapressunni, segir að almennt skýri hærri fargjöld og auknar hliðartekjur hækkun á einingatekjum flugfélaga. Og hann telur að farmiðaverð muni hækka á næstunni sem rekja megi til hækkandi fargjalda eftir Covid-19. Framboð muni nefnilega dragast saman og eins þurfi flugfélögin hærri tekjur til að standa undir afborgunum á þeim lánum sem þau hafa tekið vegna heimsfaraldursins. 

Elnæs er þó ekki sannfærður um að Icelandair njóti þessara verðhækkana þegar kemur að flugi yfir Norður-Atlantshafið. Samkeppni í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku verður áfram hörð að hans mati.

„Þar með yrði pressa sett á tengiflug Icelandair og fargjöld félagsins gætu þá þróast á neikvæðan hátt því flug með millilendingu á Íslandi verður að vera samkeppnishæft í verði við beina flugið sem keppinautarnir bjóða,“ útskýrir Norðmaðurinn. 

Samanburður á fargjöldum milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur líka gefið til kynna að farþegar sem leggja á sig millilendingu borga vanalega fimmtungi til fjórðungi lægra verð en þeir sem fljúga beint. 

Elnæs sér þó sóknarfæri í auknum hliðartekjum hjá Icelandair og bendir til að mynda á að stór hluti heildartekna lággjaldaflugfélagsins Wizz Air komi vegna sölu á alls kyns aukaþjónustu. Norski sérfræðingurinn undirstrikar að einingakostnaðurinn (CASK) skipti meginmáli í flugrekstri. 

Tekjuspáin 2018 gekk ekki eftir og Björgólfur hætti

Líkt og fram kom hér að ofan þá hafa einingatekjur Icelandair farið lækkandi síðustu ár og þar hefur fargjaldaþróun mikil áhrif. Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur félagsins aftur á móti ráð fyrir að meðalfargjöldin færu upp á við.

Afkomuspá Icelandair fyrir 2018 gerði þar með ráð fyrir hagnaði þrátt fyrir hækkandi rekstrarkostnað sem rekja mátti til hærra olíuverðs og nýrra kjarasamninga. Gengisþróun var heldur ekki hagfelld og WOW varð sífellt harðari keppinautur þrátt fyrir mikinn taprekstur og vanskil á Keflavíkurflugvelli.

Sumarið 2018 varð forsvarsmönnum Icelandair það þó ljóst að horfurnar í rekstrinum voru lakari en þeir höfðu reiknað með.

„Sú þróun meðalverða sem við gerðum ráð fyrir á síðari hluta ársins virðist ekki vera að ganga eftir og því lækkum við tekjuspá félagsins,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, þáverandi forstjóri Icelandair, í tilkynningu til kauphallar í byrjun júlí 2018.

Björgólfur sagði svo starfi sínu lausu tæpum tveimur mánuðum síðar og vísaði þá til þess að spáin um auknar tekjur hefði ekki gengið eftir. Í hinni nýju fjárfestakynningu Icelandair Group sést að einingakostnaðurinn (CASK) rauk upp árið 2018 eða um 9,5 prósent frá fyrra ári. Einingatekjurnar lækkuðu á sama tíma en hlutfallslega mun minna eða um 1,6 prósent.

Nú gera sérfræðingar Icelandair aftur á móti ráð fyrir að einingakostnaðurinn á árunum 2022 til 2024 lækki verulega og verði álíka og á árunum 2015 til 2017.

Þar vega nýgerðir kjarasamningar við flugstéttir félagsins þungt. Í kynningunni er nefnt sem dæmi að þeir samningar hefðu bætt afkomu félagsins um fjóra milljarða króna í dag. Þar er líklega vísað til flugáætlunar Icelandair fyrir Covid-19. Svo mikil verða umsvifin þó ekki á ný fyrr en eftir nokkur ár.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …