Samfélagsmiðlar

Nú þarf tekjuspá Icelandair að ganga eftir

Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur Icelandair Group sér vonir um að meðalfargjöldin myndu hækka. Það gekk ekki eftir og félagið kom út í mínus í fyrsta sinn í mörg ár. Viðspyrna félagsins eftir Covid-19 byggir á hækkandi einingatekjum en þá þurfa fargjöldin að mjakast upp á við.

Tekjur Icelandair á hvern floginn kílómetra (RASK) hafa farið lækkandi síðustu ár. Þær voru til að mynda ellefu prósent lægri árið 2018 í samanburði 2015. Nú gerir spá sérfræðinga Icelandair aftur á móti ráð fyrir hækkun á þessum lið. Þannig verða þessar einingatekjur sautján prósentum hærri árið 2024 en þær voru á síðasta ári samkvæmt nýrri fjárfestakynningu félagsins.

„Við teljum líklegt að flest flugfélög muni einbeita sér að því að styrkja „hub starfsemi“ sína næstu árin. Þetta mun valda færri beinum flugum á N-Atlantshafsmarkaðnum sem mun gera „1-stop“ vöru okkar, í gegnum Ísland, mjög álitlega og þar með hækka RASK,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, þegar hann er beðinn um nánari útlistingu á spá félagsins um hækkun einingatekna. 

Bogi bendir á fleiri atriði sem styðji við hækkandi einingatekjur. Til að mynda hafi fjárfesting í mannafla og hugbúnaði á sviði tekjustýringar verið byrjuð að skila skýrum bata fyrir heimsfaraldurinn og gert sé ráð fyrir að áframhaldandi þar á. Einnig er ætlunin að fá inn meiri þóknanir fyrir sölu á þjónustu þriðja aðila. Til að mynda af bókunum á hótelherbergjum og ferðaþjónustu. Segir Bogi að áfram verði fjárfest í stafrænum lausnum til að ná þessu marki.

Forstjórinn undirstrikar að með betri stýringu leiðarkerfisins þá náist fram bæting í bæði einingakostnaði og -tekjum. „Fjarlægð hefur áhrif á þessar stærðir og þannig kom flugið til San Francisco illa út þar sem fargjöldin voru of lág miðað við flugtíma.“ 

Ekki sannfærður um að hærri fargjöld skili sér til Icelandair

Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs, sem rýnir reglulega í rekstur flugfélaga í skandinavísku viðskiptapressunni, segir að almennt skýri hærri fargjöld og auknar hliðartekjur hækkun á einingatekjum flugfélaga. Og hann telur að farmiðaverð muni hækka á næstunni sem rekja megi til hækkandi fargjalda eftir Covid-19. Framboð muni nefnilega dragast saman og eins þurfi flugfélögin hærri tekjur til að standa undir afborgunum á þeim lánum sem þau hafa tekið vegna heimsfaraldursins. 

Elnæs er þó ekki sannfærður um að Icelandair njóti þessara verðhækkana þegar kemur að flugi yfir Norður-Atlantshafið. Samkeppni í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku verður áfram hörð að hans mati.

„Þar með yrði pressa sett á tengiflug Icelandair og fargjöld félagsins gætu þá þróast á neikvæðan hátt því flug með millilendingu á Íslandi verður að vera samkeppnishæft í verði við beina flugið sem keppinautarnir bjóða,“ útskýrir Norðmaðurinn. 

Samanburður á fargjöldum milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur líka gefið til kynna að farþegar sem leggja á sig millilendingu borga vanalega fimmtungi til fjórðungi lægra verð en þeir sem fljúga beint. 

Elnæs sér þó sóknarfæri í auknum hliðartekjum hjá Icelandair og bendir til að mynda á að stór hluti heildartekna lággjaldaflugfélagsins Wizz Air komi vegna sölu á alls kyns aukaþjónustu. Norski sérfræðingurinn undirstrikar að einingakostnaðurinn (CASK) skipti meginmáli í flugrekstri. 

Tekjuspáin 2018 gekk ekki eftir og Björgólfur hætti

Líkt og fram kom hér að ofan þá hafa einingatekjur Icelandair farið lækkandi síðustu ár og þar hefur fargjaldaþróun mikil áhrif. Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur félagsins aftur á móti ráð fyrir að meðalfargjöldin færu upp á við.

Afkomuspá Icelandair fyrir 2018 gerði þar með ráð fyrir hagnaði þrátt fyrir hækkandi rekstrarkostnað sem rekja mátti til hærra olíuverðs og nýrra kjarasamninga. Gengisþróun var heldur ekki hagfelld og WOW varð sífellt harðari keppinautur þrátt fyrir mikinn taprekstur og vanskil á Keflavíkurflugvelli.

Sumarið 2018 varð forsvarsmönnum Icelandair það þó ljóst að horfurnar í rekstrinum voru lakari en þeir höfðu reiknað með.

„Sú þróun meðalverða sem við gerðum ráð fyrir á síðari hluta ársins virðist ekki vera að ganga eftir og því lækkum við tekjuspá félagsins,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, þáverandi forstjóri Icelandair, í tilkynningu til kauphallar í byrjun júlí 2018.

Björgólfur sagði svo starfi sínu lausu tæpum tveimur mánuðum síðar og vísaði þá til þess að spáin um auknar tekjur hefði ekki gengið eftir. Í hinni nýju fjárfestakynningu Icelandair Group sést að einingakostnaðurinn (CASK) rauk upp árið 2018 eða um 9,5 prósent frá fyrra ári. Einingatekjurnar lækkuðu á sama tíma en hlutfallslega mun minna eða um 1,6 prósent.

Nú gera sérfræðingar Icelandair aftur á móti ráð fyrir að einingakostnaðurinn á árunum 2022 til 2024 lækki verulega og verði álíka og á árunum 2015 til 2017.

Þar vega nýgerðir kjarasamningar við flugstéttir félagsins þungt. Í kynningunni er nefnt sem dæmi að þeir samningar hefðu bætt afkomu félagsins um fjóra milljarða króna í dag. Þar er líklega vísað til flugáætlunar Icelandair fyrir Covid-19. Svo mikil verða umsvifin þó ekki á ný fyrr en eftir nokkur ár.

Nýtt efni

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …