Samfélagsmiðlar

Nú þarf tekjuspá Icelandair að ganga eftir

Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur Icelandair Group sér vonir um að meðalfargjöldin myndu hækka. Það gekk ekki eftir og félagið kom út í mínus í fyrsta sinn í mörg ár. Viðspyrna félagsins eftir Covid-19 byggir á hækkandi einingatekjum en þá þurfa fargjöldin að mjakast upp á við.

Tekjur Icelandair á hvern floginn kílómetra (RASK) hafa farið lækkandi síðustu ár. Þær voru til að mynda ellefu prósent lægri árið 2018 í samanburði 2015. Nú gerir spá sérfræðinga Icelandair aftur á móti ráð fyrir hækkun á þessum lið. Þannig verða þessar einingatekjur sautján prósentum hærri árið 2024 en þær voru á síðasta ári samkvæmt nýrri fjárfestakynningu félagsins.

„Við teljum líklegt að flest flugfélög muni einbeita sér að því að styrkja „hub starfsemi“ sína næstu árin. Þetta mun valda færri beinum flugum á N-Atlantshafsmarkaðnum sem mun gera „1-stop“ vöru okkar, í gegnum Ísland, mjög álitlega og þar með hækka RASK,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, þegar hann er beðinn um nánari útlistingu á spá félagsins um hækkun einingatekna. 

Bogi bendir á fleiri atriði sem styðji við hækkandi einingatekjur. Til að mynda hafi fjárfesting í mannafla og hugbúnaði á sviði tekjustýringar verið byrjuð að skila skýrum bata fyrir heimsfaraldurinn og gert sé ráð fyrir að áframhaldandi þar á. Einnig er ætlunin að fá inn meiri þóknanir fyrir sölu á þjónustu þriðja aðila. Til að mynda af bókunum á hótelherbergjum og ferðaþjónustu. Segir Bogi að áfram verði fjárfest í stafrænum lausnum til að ná þessu marki.

Forstjórinn undirstrikar að með betri stýringu leiðarkerfisins þá náist fram bæting í bæði einingakostnaði og -tekjum. „Fjarlægð hefur áhrif á þessar stærðir og þannig kom flugið til San Francisco illa út þar sem fargjöldin voru of lág miðað við flugtíma.“ 

Ekki sannfærður um að hærri fargjöld skili sér til Icelandair

Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs, sem rýnir reglulega í rekstur flugfélaga í skandinavísku viðskiptapressunni, segir að almennt skýri hærri fargjöld og auknar hliðartekjur hækkun á einingatekjum flugfélaga. Og hann telur að farmiðaverð muni hækka á næstunni sem rekja megi til hækkandi fargjalda eftir Covid-19. Framboð muni nefnilega dragast saman og eins þurfi flugfélögin hærri tekjur til að standa undir afborgunum á þeim lánum sem þau hafa tekið vegna heimsfaraldursins. 

Elnæs er þó ekki sannfærður um að Icelandair njóti þessara verðhækkana þegar kemur að flugi yfir Norður-Atlantshafið. Samkeppni í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku verður áfram hörð að hans mati.

„Þar með yrði pressa sett á tengiflug Icelandair og fargjöld félagsins gætu þá þróast á neikvæðan hátt því flug með millilendingu á Íslandi verður að vera samkeppnishæft í verði við beina flugið sem keppinautarnir bjóða,“ útskýrir Norðmaðurinn. 

Samanburður á fargjöldum milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur líka gefið til kynna að farþegar sem leggja á sig millilendingu borga vanalega fimmtungi til fjórðungi lægra verð en þeir sem fljúga beint. 

Elnæs sér þó sóknarfæri í auknum hliðartekjum hjá Icelandair og bendir til að mynda á að stór hluti heildartekna lággjaldaflugfélagsins Wizz Air komi vegna sölu á alls kyns aukaþjónustu. Norski sérfræðingurinn undirstrikar að einingakostnaðurinn (CASK) skipti meginmáli í flugrekstri. 

Tekjuspáin 2018 gekk ekki eftir og Björgólfur hætti

Líkt og fram kom hér að ofan þá hafa einingatekjur Icelandair farið lækkandi síðustu ár og þar hefur fargjaldaþróun mikil áhrif. Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur félagsins aftur á móti ráð fyrir að meðalfargjöldin færu upp á við.

Afkomuspá Icelandair fyrir 2018 gerði þar með ráð fyrir hagnaði þrátt fyrir hækkandi rekstrarkostnað sem rekja mátti til hærra olíuverðs og nýrra kjarasamninga. Gengisþróun var heldur ekki hagfelld og WOW varð sífellt harðari keppinautur þrátt fyrir mikinn taprekstur og vanskil á Keflavíkurflugvelli.

Sumarið 2018 varð forsvarsmönnum Icelandair það þó ljóst að horfurnar í rekstrinum voru lakari en þeir höfðu reiknað með.

„Sú þróun meðalverða sem við gerðum ráð fyrir á síðari hluta ársins virðist ekki vera að ganga eftir og því lækkum við tekjuspá félagsins,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, þáverandi forstjóri Icelandair, í tilkynningu til kauphallar í byrjun júlí 2018.

Björgólfur sagði svo starfi sínu lausu tæpum tveimur mánuðum síðar og vísaði þá til þess að spáin um auknar tekjur hefði ekki gengið eftir. Í hinni nýju fjárfestakynningu Icelandair Group sést að einingakostnaðurinn (CASK) rauk upp árið 2018 eða um 9,5 prósent frá fyrra ári. Einingatekjurnar lækkuðu á sama tíma en hlutfallslega mun minna eða um 1,6 prósent.

Nú gera sérfræðingar Icelandair aftur á móti ráð fyrir að einingakostnaðurinn á árunum 2022 til 2024 lækki verulega og verði álíka og á árunum 2015 til 2017.

Þar vega nýgerðir kjarasamningar við flugstéttir félagsins þungt. Í kynningunni er nefnt sem dæmi að þeir samningar hefðu bætt afkomu félagsins um fjóra milljarða króna í dag. Þar er líklega vísað til flugáætlunar Icelandair fyrir Covid-19. Svo mikil verða umsvifin þó ekki á ný fyrr en eftir nokkur ár.

Nýtt efni

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …

Koffínlausar kaffibaunir eru hefðbundnar kaffibaunir þar sem beiskjuefnið og örvandi hlutinn koffín hefur verið fjarlægt. Útbreiddasta og ódýrasta ferlið við að losa baunirnar við koffínið er hins vegar orðið umdeilt þar sem efnasambönd sem við það eru notuð eru nú tengd við ýmsa heilsufarskvilla.Hægt er að beita nokkrum aðferðum við að losa kaffibaunir við koffín. …