Ólík niðursveifla hjá Icelandair, SAS og Finnair

Þó flugumferðin í júlí hafi verið mun meiri en mánuðina á undan þá var samdrátturinn hjá norrænu flugfélögunum engu að síður gríðarlegur.

MYND: AMAN BHARGAVA / UNSPLASH

Þotur Icelandair voru mun þéttsetnari í júlí en flugvélar Finnair og SAS. Hjá Icelandair var sætanýtingin sjötíu prósent á meðan rétt um fjögur af hverjum tíu sætum hjá Finnair voru skipuð farþegum. SAS flaug með hálf fullar vélar.

Þegar horft er til samdráttar í fjölda farþega þá var hann aftur á móti mun meiri hjá Icelandair og Finnair en hjá SAS eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Skýringin á því liggur meðal annars í því hversu stórtækt SAS er í innanlandsflugi í Noregi og Svíþjóð. Sá hluti starfseminnar hefur ekki tekið eins mikla dýfu og millilandsflugið vegna heimsfaraldursins.

Í því samhengi má benda á að farþegum Air Iceland Connect, sem nú heyrir beint undir Icelandair en ekki Icelandair samsteypuna, fækkaði aðeins um 48 prósent í júlí. Hjá Icelandair nam samdrátturinn 87 prósentum.

Vöruflutningar Icelandair hafa dregist mun minna saman en hjá Finnair því umsvif finnska félagsins á því sviði drógust saman um þrjá fjórðu en aðeins fimmtán prósent hjá Icelandair. Reyndar var samdrátturinn minni í júní hjá íslenska félaginu eða um níu af hundraði.