Óska eftir gististöðum til að hýsa ferðafólk í sóttkví

Það er óljóst hversu margir munu koma til landsins á miðvikudaginn þegar hertar reglur um sóttkví taka gildi. Nú er auglýst eftir gististöðum sem geta hýst hópinn.

reykjavik Tim Wright
Herbergi sem ætluð eru gestum í sóttkví þurfa að vera í sérálmu og gerð krafa um sérbaðherbergi. Einnig þarf að tryggja fimm daga birgðir á herberginu af handklæðum. salernispappír og sápu. Mynd: Tim Wright/Unsplash

Allir þeir sem fljúga til landsins frá og með miðvikudeginum þurfa að fara í fjögurra til fimma daga sóttkví á milli skimana fyrir Covid-19. Almennt er gert ráð fyrir að þessar hertu reglur dragi úr áhuga ferðamanna á sækja landið heim.

Það liggur skiljanlega ekki fyrir hversu margir hætta við að koma til landsins vegna nýju reglnanna en ef flestir halda sig við ferðaplönin þá er ljóst að fjöldi fólks í sóttkví hér á landi margfaldast strax á miðvikudag.

Í dag eru nefnilega ríflega fimm hundruð einstaklingar í sóttkví samkvæmt Covid.is. Aftur á móti voru um þrjú þúsund manns skimaðir við landamærin í gær. Ef álíka margir koma til landsins hvern dag í næstu viku þá verða ríflega tíu þúsund manns komnir í sóttkví um helgina.

Og stærsti hluti þeirra þá ferðamenn og nú auglýsir Ferðamálastofa eftir gististöðum sem eru tilbúnir til að taka á móti gestum sem þurfa í sóttkví.

Á heimasíðu stofnunarinnar segir að herbergi sem ætluð eru fólki í sóttkví þurfi að vera í sérálmu eða á hæðum þar sem aðrir gestir dvelja ekki. Einnig er gerð krafa um sérbaðherbergi og tryggja þarf fimm daga birgðir á herberginu af handklæðum, salernispappír og sápu.

Öll þjónusta við ferðafólkið fer fram við herbergisdyr og starfsfólk má ekki fara inn í herbergin. Gestirnir sjálfir eru svo ábyrgir fyrir öllum greiðslum til gististaðarins.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Ferðamálastofu og þar geta gististaðir skráð sig í verkefnið.