Samfélagsmiðlar

Reyna að selja hlutabréf og flugmiða í lokuðu landi

Þremur dögum eftir að tilkynnt var að hlutafjárútboð Icelandair Group gæti nú loks hafist þá boðuðu stjórnvöld hertar aðgerðir við landamærin vegna Covid-19. Þar með má segja að botninn hafið dottið úr rekstrinum tímabundið.

Stefnt hefur verið að því að ljúka hlutafjárútboði Icelandair í ágúst.

„Það er búið að loka ís­lenskri ferðaþjón­ustu, það er bara þannig.“ Þetta sagði Jóhann­es Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar, við Mbl um þær nýju kröfur að allir sem til landsins koma fari í sóttkví. Ráðamenn þjóðarinnar eru líka á því að hinar hertu reglur muni draga verulega úr áhuga útlendinga að sækja landið heim.

Og ekki verða Íslendingar sjálfir á faraldsfæri á næstunni því nú ráðleggur Landlæknir fólki frá því að ferðast til útlanda. Ekki liggur fyrir hversu lengi sú viðvörun verður í gildi.

Við þessar aðstæður þarf forsvarsfólk Icelandair Group að sannfæra fjárfesta um að leggja fyrirtækinu til nærri þrjátíu milljarða króna. Er þar aðallega horft til íslenskra lífeyrissjóða líkt og áður hefur komið fram en sjóðirnir eiga í dag, beint eða óbeint, um helming af hlutafénu. Til viðbótar ætlar ríkisstjórnin að ábyrgjast lán til flugfélagsins en það, líkt og margir keppinautar þess, rær nú lífróður vegna áhrifa Covid-19.

Allt stopp á öllum þremur mörkuðunum

Hjá Icelandair hefur farþegum lengi verið skipt upp í þrjá hópa. Ferðamenn sem fljúga til landsins, Íslendinga á leið til útlanda og svo tengifarþega. Þeir sem fljúga á milli Norður-Ameríku og meginlands Evrópu teljast til síðastnefnda hópsins.

Nú hefur flug til Bandaríkjanna og Kanada hins vegar að mestu legið niðri í heimsfaraldrinum og því enginn markaður fyrir flug þaðan. Og sem fyrr segir hafa íslensk stjórnvöld eiginlega lokað tímabundið á hina tvo markaðina sem Icelandair sækir sínar tekjur til, þ.e. erlendra ferðamanna og Íslendinga sjálfra.

Fyrsta sumarvertíð Icelandair síðan árið 2002 án íslenskrar samkeppni

Tekjur af farþegaflugi í september hafa hingað til vegið þungt í rekstri Icelandair. Í farþegum talið er sá mánuður nefnilega sá fjórði stærsti yfir árið. Samtals flutti félagið 421 þúsund farþega í september í fyrra en það er ekki hægt að fá skýra mynd af tekjunum af farþegaflugi á þessu tímabili. Ástæðan er sú að skaðabætur frá Boeing vegna MAX þotanna voru að hluta til færðar sem farþegatekjur á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Þar með veit aðeins lykilstarfsfólk Icelandair hver tekjuþróun félagsins var yfir háannatímann í fyrra. En sú sumarvertíð var einmitt sú fyrsta síðan árið 2002 sem Icelandair átti ekki í samkeppni við annað íslenskt flugfélag. Það eru þó vísbendinar um að einingatekjurnar hafi í raun ekki hækkað í fyrra líkt og farið var yfir hér á Túrista í vor.

Gera út á fólk á leið í frí en ekki viðskiptaferðalanga

Samkeppnin í flugi yfir Norður-Atlantshafið vegur þó sennilega þyngra í þróun farþegatekna Icelandair. Félagið býður nefnilega ekki upp á beint flug milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku og því þurfa farþegarnir að millilenda á Keflavíkurflugvelli á leiðinni. Og fólk leggur þess háttar flækjustig aðeins á sig ef farmiðinn eru nokkru ódýrari en fyrir beint flug.

Til viðbótar gerir Icelandair aðallega út á almenna farþega en ekki viðskiptaferðalanga og aðra sem kaupa sæti á fyrsta farrými. Tekjurnar verða því lægri á hvern farþega. Sú staðreynd gæti þó reyndar flýtt fyrir viðspyrnu Icelandair því almennt eru greinendur sammála um að í nánustu framtíð verði mestur samdrátturinn í vinnuferðum. Þar með standi flugfélög verr sem gera út á farþega sem setja verðið ekki fyrir sig.

Opin landamæri eru þó vissulega helsta forsenda þess að flugfélög skili eigendum sínum arði á ný. Síðustu mánuði hefur alþjóðlegur flugrekstur í raun aðeins gengið út á að tryggja samgöngur milli landa og þá oft með stuðningi hins opinbera. Miðað við nýjustu ferðatakmarkanir er ekki útlit fyrir að það breytist í bráð.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …