Ríkislánið til Icelandair ennþá ófrágengið

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 30. apríl að veita Icelandair samsteypunni lánalínu. Útfærsla á þessari ríkisaðstoð er ennþá í vinnslu og nú hefur hlutafjárútboði fyrirtækisins verið frestað á ný.

Boðuðu hlutafjárútboði Icelandair Group hefur verið seinkað fram í september samkvæmt tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í gærkvöld. Upphaflega stóð til að hefja útboðið í lok júní líkt og kynnt var á hluthafafundi félagsins þann 22. maí.

Stjórnendur Icelandair settu sér þá það markmið að ljúka kjarasamningum við flugfreyjur fyrir útboðið og einnig átti að ná samkomulagi við kröfuhafa og Boeing flugvélaframleiðandann. Allir þessir samningar eru í höfn líkt og tilkynnt var í síðustu viku.

Ennþá er samkomulag við íslensk stjórnvöld um lánalínu ekki í höfn. Þær umræður eru þó á lokametrunum samkvæmt því sem segir í tilkynningunni sem Icelandair sendi frá sér í gær. Ljóst er að útfærsla á þessu ríkisláni hefur tekið langan tíma því ríkisstjórnin gaf út vilyrði fyrir láninu þann 30. apríl eða fyrir þremur og hálfum mánuði síðan.

Ríkisstjórnir víða í Evrópu hafa þó á þessu tímabili stutt við fluggeirann í sínum löndum sem sértækum aðgerðum. Það hafa til að mynda stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum gert en Finnair og SAS eru að stórum hlut í eigu hins opinbera. Þýska ríkið gerðist svo hluthafi í Lufthansa samsteypunni til að koma því fyrirtæki í gegnum heimsfaraldurinn.

Líkt og Túristi rakti í grein í gærmorgun þá eru aðstæður fyrir hlutafjárútboð flugfélags sérstaklega krefjandi í dag. Sóttvarnaraðgerðir við landamærin hafa verið hertar um óákveðinn tíma og Íslendingum er ráðlagt að ferðast ekki til útlanda.

Áður hafði Icelandair stefnt að því að safna um 30 milljörðum króna í hlutafjárútboðinu en nú hefur sú upphæð verið lækkuð niður í að hámarki 23 milljarða króna. Nýja hlutaféð verður boðið út á genginu 1 en gengi hlutabréfa Icelandair er í dag 1,64 krónur á hvern hlut.